Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, hefur staðfest að hann muni setjast niður með forráðamönnum félagsins til þess að ræða samningsmál sín. Þetta staðfesti leikmaðurinn í viðtali hjá Rio Ferdinand á BT Sport.
Samningur Pogba við Manchester United, rennur út sumarið 2022. Leikmaðurinn segist vera tilbúinn til þess að setjast niður með forráðamönnum félagsins eftir miklar vangaveltur um framtíð hans hjá félaginu á undanförnum mánuðum.
„Ég er með samning, ég er hér og er að njóta mín. Það vita allir að ég á ár eftir af núverandi samningi mínum svo ég ætla mér að ræða við forráðamenn félagsins,“ sagði Pogba í viðtali við Rio Ferdinand.
Hann sé hins vegar að einblína á núverandi tímabil með liðinu og ætlar sér stóra hluti.
„Nú er markmið mitt að vinna titil, það er það eina sem ég hugsa um. Ég ætla mér að gefa allt í að hjálpa félaginu sem mest,“ sagði Paul Pogba, leikmaður Manchester United.