Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, haslar sér ekki einungis völl sem einn af bestu knattspyrnustjórum í heimi. Hann er einnig iðinn við að leika í auglýsingum.
Klopp þénaði í kringum 6.7 milljónir punda í fyrra, fyrir það að leika í auglýsingum, það jafngildir rúmlega 1,1 milljarði íslenskra króna. Knattspyrnustjórinn sér hins vegar til þess að aðrir njóti góðs af launum erfiðisins því ákveðin prósenta af launum hans rennur til góðgerðafélaga.
Knattspyrnustjórinn geðþekki er eftirsóttur af mörgum fyrirtækjum en ræður sig einungis í auglýsingar fyrir þýsk fyrirtæki.
„Við ákváðum að Jurgen standi fyrir ‘búið til í Þýskalandi,’ Hann leikur einungis í auglýsingum á vegum þýskra fyrirtækja,“ sagði Marc Kosicke, ráðgjafi Klopp.
Meðal þeirra fyrirtækja sem Klopp hefur gert samninga við eru Opel, Erdinger bjórframleiðandinn og VR-Bank.
Ljóst er að Klopp kann vel við sig í þessum aðstæðum en hér má sjá leiklistarhæfileika hans í auglýsingu fyrir Erdinger.