fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fréttir

Sigrún rifjar upp annað dauðsfall í sundlaug – Segir líkindi milli banaslysa „óþægileg“

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 26. janúar 2021 12:30

Sundlaug Selfoss mynd/sundlaugar.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borið hefur á umræðu um öryggi í sundlaugum borgarinnar og landsins alls eftir að maður fannst hreyfingarlaus á fimmtudaginn síðastliðinn í innilaug Sundhallar Reykjavíkur. Lögreglu barst þá útkall klukkan 12:02 sem skráð er sem „endurlífgun“ í hennar bókum. Eftir að hafa legið á botni sundlaugarinnar í sex mínútur var manninum komið til bjargar, hann dreginn upp úr sundlauginni og endurlífgaður.

Maðurinn lést síðar á Landspítalanum. Hann var 31 árs gamall.

Rannsókn lögreglu er á frumstigi og lögreglan hefur ekki viljað gefa mikið upp um hvernig henni verður háttað, en DV hefur þó fengið staðfest að krufning mun fara fram í þessari eða næstu viku,

Faðir mannsins sem lést steig svo fram í byrjun vikunnar og gagnrýndi að fram hafi komið í tilkynningu lögreglunnar að maðurinn hafi átt við undirliggjandi veikindi að stríða. Faðirinn segir orð lögreglumannsins Margeirs Péturssonar um veikindi röng. Það á einfaldlega ekki að geta gerst að maður liggi hreyfingarlaus í sex mínútur í sundlaug.

DV spurði Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur um hvernig öryggismálum væri háttað í sundlaugum borgarinnar. Svörin komu í formi tilkynningar á alla fjölmiðla landsins rétt fyrir lok vinnudagsins í gær. Sagði í tilkynningunni að verið væri að skoða málið og það yrði í skoðun „næstu daga.“ Þó málið væri í skoðun gat höfundur tilkynningarinnar þó fullyrt að farið var eftir öllum reglum um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Segir í tilkynningu ÍTR:

Í Sundhöllinni eru […] myndavélar með upptökubúnaði sem sýna yfirlitsmynd yfir laugarsal Sundhallarinnar.

Í Sundhöllinni er laugarvörður á vakt hverju sinni í innilaug og annar í laugarvarðarturni með yfirsýn yfir útilaug og öryggismyndavélar.

Laugarvörður var í sal Sundhallarinnar þegar umrætt slys varð og laugarvörður í turni.

Lögregla fer með rannsókn málsins og er lögreglan með upptökur úr öryggismyndavélum Sundhallarinnar.

Orð ÍTR eru býsna afdráttarlaus. Skilaboð þeirra virðast því vera þau að málið sé til skoðunar þó það liggi fyrir að öllum öryggisreglum hafi verið fylgt. Þess má þá einnig geta að að teknu tilliti til Covid-takmarkana, má Sundhöll Reykjavíkur taka á móti 120 manns í laugina í einu.

Samkvæmt reglugerð um hollusthætti á sund- og baðstöðum, skal í hverri sundlaug neyðaráætlun, viðbragðsáætlun og öryggisreglur sem allir starfsmenn skulu upplýstir um. Þá skal vera tiltækur viðurkenndur búnaður til skyndihjálpar sem er yfirfarinn reglulega og skulu starfsmenn, sundkennarar og sundþjálfarar þjálfaðir í notkun hans.

Þá segir að í 25 metra laugum skuli vera að minnsta kosti einn starfsmaður að sinna laugargæslu. Skilgreining laugargæslu í reglugerðinni er eftirfarandi: „Stöðug öryggisgæsla laugarvarðar með gestum í laug.“ Í 40 metra laugum skulu tveir starfsmenn sinna laugargæslu.

Banaslys í sundlaug eins og það sem gerðist fyrir tæpri viku síðan í Sundhöllinni er því miður ekki einsdæmi. Árið 2006 drukknaði 42 ára gamall maður í Sundlaug Selfoss. Sigrún Sól Ólafsdóttir, systir mannsins sem drukknaði, skrifar á samfélagsmiðla í morgun að fréttirnar af slysinu í Sundhöllinni hræri upp sárar og erfiðar minningar.

Segir Sigrún óþægileg líkindi milli fyrstu frétta af málunum tveimur. „Ég hnaut einmitt um fyrsta fréttaflutning af málinu, þar sem lögreglumaður fullyrti að um veikindi hefði verið að ræða. Aftur og aftur koma í gegnum árin koma upp slys, drukknun, í sundlaugum. Stundum í sömu laugum. Slys geta gerst, en það er gersamlega sturlað að ekki sé farið margfalt betur yfir öryggismál og verkferlar lagaðir. Hvað þarf mörg mannslíf til?“

Sigrún segir að fjölskyldan hafi sjálf hugsað að hann hlyti að hafa orðið veikur. „Það bara gekk ekki upp að hann gæti einfaldlega drukknað.“ Bróðir Sigrúnar var einhverfur og notaði sondu. Sigrún segir að það gæti hafa átt sinn þátt í að aðrir hafi trúað sögunni um að undirliggjandi veikindi hafi átt þátt í andlátinu. Fjölskyldan vissi þó betur. „Hann var líkamlega hraustur og hann fór í sund á hverjum einasta degi og synti alltaf á sama tíma, hvernig sem viðraði á kvöldin rétt fyrir lokun laugarinnar.“

Krufning hafi síðar leitt í ljós hið sanna. „Þetta var drukknun,“ skrifar Sigrún.

Sigrún gagnrýnir viðbrögð sundlaugastjórnenda. „Á sínum tíma kom einn blómvöndur frá stjórn laugarinnar og samúðarkveðjur. Ekkert um afsökun, útskýringu, engum verkferlum breytt.“ Sigrún segist hafa reynt að spyrja en af tilliti til ungs starfsmanns sem var við störf í sundlauginni þegar slysið bar að steig fjölskyldan varlega til jarðar. Sigrún áréttar í samtali við blaðamann DV að sökin geti ekki legið hjá stökum starfsmönnum sundlauganna. Sérstaklega ekki þegar sambærileg slys gerast ítrekað. Sökin hljóti að liggja í skipulagi og stjórnun sundlauganna.

Síðar, þegar Sigrún þurfti sjálf að grípa inn í atburðarás barns sem var hætt komið í lauginni segist Sigrún hafa „trompast úr reiði.“ „Ég ruddist upp í turninn þarna úti og þar sat ein unglingsstelpa og var að skoða símann sinn. Eftir á reyndi ég að tala um þetta við starfsmenn í afgreiðslunni og það var bara yppt öxlum.“

Í samtali við DV segir Sigrún að vel megi vera að hún hafi brugðist of hart við, en engu að síður, segir Sigrún, hafi þarna verið barn sem var farið að hósta og gleypa vatn og vinir barnsins haft áhyggjur af stöðunni. Allt án þess að nokkur starfsmaður sundlaugarinnar hafi orðið var við ástandið eða brugðist við.

Stuttu síðar varð enn eitt banaslysið i þessari sömu laug, segir Sigrún.

„Drukknun í sundlaugum á ekki að eiga sér stað. Ef öryggisgæsla og viðbragðsflýtir væri í lagi hefðum við ekki tapað öllum þessum lífum.“

Á síðustu 16 árum hafa fjögur banaslys orðið í sundlauginni á Selfossi. Árið 2006 drukknaði bróðir Sigrúnar í lauginni. Árið 2011 drukknaði ungur drengur í lauginni og 2019 fékk karlmaður hjartaáfall í gufubaði sundlaugarinnar. Það síðasta í röðinni varð svo í júní í fyrra þegar eldri karlmaður lést við sundiðkun, að því er kom fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi. „Sjúkralið og lögregla fóru á vettvang en endurlífgun bar ekki árangur,“ sagði jafnframt í tilkynningunni.

Sem fyrr segir er rannsókn á andlátinu í Sundhöll Reykjavíkur nú á borði lögreglu, sem bíður niðurstöðu krufningar. DV hefur óskað eftir frekari gögnum frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar. Meðal annars hefur DV óskað eftir að fá afrit af neyðaráætlun, viðbragðsáætlun og öryggisreglum Sundhallarinnar. Þá hefur DV beðið um að fá að heimsækja Sundhöllina með sérfræðingi til þess að taka út öryggisbúnað sem er á staðnum og verkferla við yfirferð, prófun og kennslu á notkun öryggisbúnaðarins. Svar við þeirri ósk hafði ekki borist við birtingu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja