Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að búist sé við að Guðmundur Ingi taki þátt í forvali VG í Suðvesturkjördæmi. Þar var Rósa Björk Brynjólfsdóttir oddviti flokksins í kosningunum 2017 en hún er nú gengin í Samfylkinguna. Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður, hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort hann gefi kost á sér í forvalinu í kjördæminu. Reiknað er með að Una Hildardóttir, varaþingmaður, taki þátt í forvalinu en ekki Bjarki Bjarkason, forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, eru taldar eiga oddvitasætin í Reykjavík vís. Ekki er annað vitað en að Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður, taki þátt í forvalinu í Reykjavík.
Í Suðurkjördæmi munu þau Kolbeinn Óttarsson Proppé og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir líklega takast á um oddvitasætið.
Í Norðvesturkjördæmi er talið líklegt að Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður, takist á um oddvitasætið við Bjarna Jónsson, sveitarstjórnarmann í Skagafirði.
Í Norðausturkjördæmi vilja Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður, Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, og Ingibjörg Þórðardóttir, ritari VG, öll oddvitasætið.