Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Júlíu Rós Atladóttur, framkvæmdastjóra Distica, að dreifingin sé farin að rúlla áfram. Á miðvikudaginn er von á tvö til þrjú þúsund skömmtum frá Pfizer en síðasta sending frá fyrirtækinu kom í síðustu viku. Á sama magn að berast vikulega næstu mánuði. Í lok vikunnar er von á 1.200 skömmtum frá Moderna en þá verða tvær vikur liðnar frá því að fyrsta sendingin frá fyrirtækinu kom til landsins. Bóluefni frá Moderna á að berast á tveggja vikna fresti samkvæmt afhendingaráætlun.
Ef áætlanir standast má reikna með að hingað berist 15.500 skammtar frá Pfizer og Moderna mánaðarlega. Talið er að bóluefni AstraZeneca fái markaðsleyfi í Evrópu í þessari viku og bætast skammtar frá fyrirtækinu þá við.
Morgunblaðið hefur eftir Júlíu að Distica hafi átt í viðræðum við AstraZeneca um dreifingu bóluefnis fyrirtækisins en ekkert sé fast í hendi og verði ekki fyrr en markaðsleyfi liggi fyrir. Hún sagði að engin tímalína né afhendingaráætlun liggi fyrir en samningur liggi fyrir á milli Distica og AstraZeneca um dreifingu bóluefnisins.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði ekki líklegt að lokið verði við bólusetningu forgangshópa fyrir marslok. „Landsbyggðin stendur svolítið út af,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið og bætti við að ljúka þurfi við að bólusetja framlínustarfsmenn þar. „Það skiptir miklu máli að bólusett verði á landsbyggðinni sem fyrst.“