Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum svekktur eftir tap sinna manna gegn Manchester United í enska bikarnum í kvöld. Leikurinn endaði með 3-2 sigri United.
Klopp er samt sem áður ánægður með sumt af því sem hann sá í leik sinna manna.
„Það var mikið af góðum hlutum í okkar leik en einnig mistök í kringum mörkin sem við fáum á okkur. Ef þú ætlar að vinna hér þá verðurðu að spila þinn besta leik, við gerðum það ekki í kvöld,“ sagði Klopp í viðtali eftir leik.
Hann segir að liðið muni draga lærdóm af þessum leik.
„Við getum tekið með okkur hluti úr þessum leik, við reynum að læra eitthvað af öllum leikjum,“ sagði Klopp.
Mohamed Salah skoraði bæði mörk Liverpool í leiknum.
„Það er gott fyrir Salah að fá meira sjálfstraust. Þetta var erfiður leikur, við vildum vinna en þetta var ekki nógu gott,“ sagði Klopp í viðtali eftir leik.