Kristofer Sas, læknir belgíska karlalandsliðsins, sér marg jákvætt við að Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City sé meiddur þessa stundina.
De Bruyne verður frá í að minnsta kosti sex vikur eftir að hafa meiðst gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á dögunum. Ljóst er að þetta eru erfiðar fréttir fyrir Pep Guardiola og hans menn í Manchester City en Kristofer Sas telur þetta gott fyrir Belgíu.
„Svona meiðsli eru alls ekki slæm ef við horfum til Evrópumeistaramótsins í sumar. Kevin fær nauðsynlega hvíld fyrir næstu mánuði og getur náð sér að fullu. Það að Kevin skuli vera frá í sex vikur er í raun bara mjög ákjósanleg staða frá okkar bæjardyrum séð,“ sagði Krisofer Sas.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er án efa ekki sammála Kristofer Sas í þessum efnum. Hann þarf á öllum sínum stjörnuleikmönnum að halda ætli liðið sér að vinna titla á þessu tímabili.