„Ég vil lýsa yfir 100% stuðningi við Loga Geirsson. Bjánalegar árásir GG þjálfara á hann eru alveg galnar. Áfram Logi, láttu þetta bull ekki hafa áhrif á þig. Haltu áfram að segja þína skoðun.“
Þetta segir blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær. Jakob, sem verður seint þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum, er að tala um þau orð sem Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, lét falla í kjölfar þeirrar gagnrýni sem Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, hafði eftir leiki Íslands á HM í handbolta.
„Það er svo furðulegt að upplifa það að þegar við erum að fara hér á stórmót og það vantar fyrirfram þrjá lykilleikmenn og raunverulega síðan fjóra í framhaldinu,“ sagði Guðmundur eftir naumt tap Íslands gegn Frakklandi. „Það er algjörlega óþolandi hvernig sérfræðingar RÚV eru að tjá sig á niðrandi hátt um þetta, talandi um eftir leikinn á móti Sviss að ég og liðið sé ráðalaust. Þetta er algjört niðurrif og svo niðrandi ummæli, og þetta hefur farið mjög illa í hópinn og mig hvernig þetta hefur verið.“
Þessi reiði sem Guðmundur hafði í garð Loga og annarra handboltasérfræðinga hjá RÚV vakti vægast sagt mikla athygli. „Ég er á þeirri skoðun, eftir að hafa séð þjálfara sem heldur ekki jafnvægi, í kvöldfréttum, að hans tími er liðinn. Það getur enginn þjálfari skellt skuldinni á aðra með eins miklum látum og ég sá hann gera í fréttum í kvöld. Þjálfarinn er kominn það mikið úr jafnvægi að ég sé ekki annað en að hann skaði leikmenn sína með því að tjá sig á þennan hátt,“ sagði Sigmundur Steinarsson, fyrrverandi yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins og rithöfundur, til að mynda um málið í samtali við DV.
Ljóst er að málið er eldfimt enn þann dag í dag en miklar umræður fóru í gang undir færslu Jakobs um málið. „Hversvegna fer Logi ekki útí þjálfun sjálfur ef hann er jafn alvitur um handbolta og hann telur sig vera? Ætlar hann bara vera áfram eins og hýena á RÚV og drulla yfir fólk eða oflofa þegar það hentar til að láta sig líta vel út?“ spurði til dæmis einn í athugasemdunum. Jakob var eki lengi að svara þessu og benti á að Logi væri ráðinn í starfið til að hafa skoðun á málinu. „En þú heimtar að hann sé sleikjulegur í því hlutverki en ekki hreinn og beinn? Hvaða sjúka meðvirkni er þetta eiginlega?“
Fleiri voru ósáttir með stuðning Jakobs við Loga en Jakob svaraði þó að sjálfsögðu fyrir sig. „Hér er verið að gera athugasemd við það að ráðist sé ómaklega að manni sem hefur verið ráðinn til að segja skoðun sína. Hann gerir það af heiðarleika en svo helsjúk er þessi þjóð af meðvirkni að margir telja að hann hefði átt að sykurhúða skoðun sína. Og til að bíta hausinn af skömminni er ráðist persónulega á manninn fyrir heiðarleikann og þá þarf ekkert að sykurhúða það. Þetta er alveg súrrandi.“