Jens Lehmann, fyrrum markvörður Arsenal og þýska landsliðsins segir að eftirspurnin eftir því að Jurgen Klopp, snúi aftur til Þýskalands og taki að sér knattspyrnustjórastöðu sé mikil.
Klopp gerði virkilega góða hluti með Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni áður en hann hélt til Liverpool þar sem hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu og ensku úrvalsdeildina. Klopp er vel liðinn í heimalandi sínu, Þýskalandi.
„Þjóðverjar kalla hann King Klopp, vegna árangursins. Við teljum að hann sé besti knattspyrnustjóri í heimi. Hann er einnig hógvær og þekkir sína styrkleika,“ sagði Lehmann í viðtali.
Lehmann telur þó að Klopp muni ekki snúa alveg strax aftur til Þýskalands.
„Þegar hann er orðinn 60 ára gæti hann mögulega snúið aftur, en ábyggilega ekki á næstunni. Ég tel einnig að hann muni ekki taka sér frí frá fótbolta þegar að hann yfirgefur Liverpool,“ sagði Lehmann.