Gera þurfti rúmlega sex mínútna hlé á leik Cheltenham Town og Manchester City í enska bikarnum í kvöld vegna flugelda sem skotið var upp rétt fyrir utan völlinn.
Dómari leiksins, Stuart Attwell, taldi best að stöðva leikinn á meðan herlegheitin stóðu yfir og bað leikmenn um að halda inn í leikmannagöngin vegna hættu á því að aðskotahlutir gætu lent á vellinum.
Skotið var stanslaust upp í þessar sex mínútur. Leikurinn hófst síðan á ný og endaði með 3-1 sigri Manchester City sem heldur áfram í næstu umferð keppninnar.