Lögreglan á Vestfjörðum hefur nú birt tilkynningu varðandi viðvararnir vegna snjóflóðahættu á Flateyri.
„Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir hættustigi og í því sambandi þykir rétt að rýma þrjú íbúðarhús á Flateyri. Það er hús nr. 9 og 12 við Ólafstún og hús nr. 14 við Goðatún. Þá er dvöl í bensinstöðinni bönnuð og kveikt verður á viðvörunarljósinu við höfnina sem merkir að ekki sé ráðlegt að dvelja þar,“ segir í tilkynningunni. „Þetta er algjör öryggisráðstöfun og óþarfi að óttast ef við fylgjum leiðbeiningum og fyrirmælum.“
Ef eitthvað er óskýrt þá hvetur lögreglan fólk til að hafa samband við sig í gegnum neyðarlínuna eða einkaskilaboð á Facebook. „Ekki hika við að hafa samband,“ segir lögreglan. „Flateyrarvegur en enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Sama á við um veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar og einnig svk „Skíðaveg“ sem liggur frá byggðinni á Ísafirði og upp á gönguskíðasvæðið á Seljalandsdal.“
Rýming atvinnuhúsnæða í Skutulsfirði er enn í gildi og er fólk hvatt til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu á milli byggðakjarna á meðan þessar veðuraðstæður eru.