Arsenal tapaði í dag 1-0 fyrir Southampton í enska bikarnum. Framherjinn Pierre-Emerick Aubameyang átti að spila í leiknum en þurfti að draga sig úr leikmannahópnum nokkrum klukkustundum fyrir leik vegna persónulegra ástæðna.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri liðsins, gat ekki gefið það upp af hvaða toga þessar persónulegar ástæður voru. Þá vildi hann ekki staðfesta að leikmaðurinn myndi spila með liðinu á þriðjudaginn næstkomandi.
„Hann þarf að takast á við vandamálið og sjá hvernig það þróast. Við erum hér til að veita honum stuðning og hann þarf að taka sinn tíma í þetta, það er forgangsmál núna,“ sagði Arteta á blaðamannafundi eftir leikinn.
Arsenal mætir Southampton aftur á þriðjudaginn, en þá í ensku úrvalsdeildinni.