Lögregla rannsakar nú tengsl milli skotárásarinnar á húsnæði Samfylkingarinnar við Sóltún 26 sem DV greindi frá í morgun og sambærilegra árása sem hafa átt sér stað undanfarna mánuði og ár og beinst að öðrum stjórnmálaflokkum.
Samkvæmt heimildum DV er um að ræða stjórnmálaflokkanna Viðreisn, Pírata og Sjálfstæðisflokkinn.
Sjá nánar: Skotið á hús Samfylkingarinnar í Sóltúni – Lögregla lokið störfum á vettvangi.
Elsa Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, staðfestir þetta í samtali við DV. Segir hún að ráðist hafi verið á hús Pírata áður en hún tók við sem framkvæmdastjóri fyrir rétt tæpu ári síðan. Eftir það hafi Píratar hafa tekið skref til þess að tryggja öryggi hússins. Í samtali við blaðamann DV sagði Elsa að viðbrögð Pírata við skotárásinni á húsnæði þeirra hafi verið í samráði við Lögreglu. Þá staðfesti hún við blaðamann að framkvæmdastjórar hinna stjórnmálaflokkanna og hún hafi rætt saman um málið og ákveðið að fylgja leiðsögn lögreglu.
„Þetta er auðvitað mjög óhugnanlegt. Ég dreg í efa að málið sé pólitískt mótíverað,“ segir Elsa.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við DV að hugsanleg tengsl milli málanna væru til skoðunar. Jóhann staðfesti jafnframt að vettvangsrannsókn á skotárásinni á húsnæði Samfylkingarinnar væri lokið og að rannsakendur væru komnir í hús á Hverfisgötu.
Að sögn Jóhanns Karls er von á tilkynningu frá lögreglunni vegna málsins síðar í dag.
Samkvæmt heimildum DV spannar saga skotárása á stjórnmálaflokkanna nokkur ár aftur í tímann en árásirnar rötuðu aldrei í fjölmiðla fyrr en nú.
Samkvæmt sömu heimildum var meintur skotárásarmaður handtekinn fyrir nokkru síðan og skotvopn sem þóttu líkleg til þess að hafa verið notuð við fyrri árásir haldlagt. Aðspurð segist framkvæmdastjóri Pírata ekki vita hverjir það voru sem voru handteknir, en að hún vissi til þess að handtökur hefðu farið fram í tengslum við málið.
Jenný Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, staðfesti jafnframt við DV að sambærileg árás hafi átt verið gerð að húsnæði flokksins í Ármúlanum. Það hafi hins vegar gerst í tíð forvera síns í starfi. Forveri Jennýar er Birna Þórarinsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri UNICEF. Ekki náðist í Birnu við vinnslu fréttarinnar.
Þórður Þórarinnsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að skemmdarverk á húsnæði flokksins í Valhöll við Háteigsveg hafi verið viðvarandi vandamál. „Hér hafa verið brotnar rúður nokkrum sinnum, og í sumum tilfellum hefur verið staðfest að það hefur verið gert með skotvopni. Þau mál eru nú í rannsókn hjá lögreglu,“ segir Þórður. Segist hann ekki getað tjáð sig um rannsókn hjá lögreglu. Aðspurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið einhver skref til þess að koma í veg fyrir frekari skemmdarverk. „Já, við höfum eflt öryggisgæslu mikið við húsið,“ svarar hann, en segist ekki geta tjáð sig um hvernig öryggisgæslu við húsið sé háttað.