fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Pressan

Hér bjó fólk í 2.000 ár – Dag einn hvarf það á braut

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 22. janúar 2021 05:08

Frá St Kilda. Mynd:National Trust for Scotland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjaþyrpingin St Kilda við Skotland er kannski ekki kjörin til búsetu en samt sem áður bjó fólk þar í um 2.000 ár. Sagt hefur verið að það hafi verið mestu hörkutól þess tíma sem hófu þar búsetu enda lífsskilyrðin allt annað en auðveld. Eyjurnar eru í Norður-Atlantshafi, um 60 km frá meginlandi Skotlands.

Lítill samgangur var við restina af Skotlandi og hið daglega líf snerist aðallega um að lifa af. Steinhús voru byggð á stærstu eyjunni, Hirta, í þorpinu Village Bay en aðeins var búið á Hirta. Á hverjum morgni héldu allir fullorðnir karlmenn á eyjunni fund. Þar ræddu þeir verkefni dagsins og skiptu þeim á milli sín. Enginn eiginlegur leiðtogi var á eyjunni og allir höfðu málfrelsi og tillögurétt á þessum morgunfundum.

Morgunfundur karlanna 1880. Mynd:Getty

TSteel, sagnfræðingur og rithöfundur, skrifaði bókina „Life and Death of St Kilda“ 1988. Í henni segir hann að oft hafi verið heitar umræður á þessum fundum en þær hafi aldrei leitt til langvarandi illdeilna meðal eyjaskeggja. Á þeim 2.000 árum sem eyjan var í byggð var ekki eitt einasta alvarlega afbrot skráð þar.

Erfið lífsskilyrði

Samvinna var grundvöllur þess að fólk gæti lifað af á eyjunni. Þrátt fyrir að þær séu langt úti í hafi voru fiskveiðar ekki hluti af daglegu lífi íbúanna. Veðrið var og er oft mjög slæmt á þessum slóðum og hafnaraðstaða var lítil sem engin og fiskveiðar því ekki einfaldar. Íbúarnir nærðust aðallega á fuglum og eggjum, og kornmeti og kartöflum sem þeir ræktuðu. Auk þess voru þeir með sauðfé en það tilheyrði eiganda eyjanna, skosku MacLeod-fjölskyldunni. Eyjaskeggjar greiddu fjölskyldunni leigu, aðallega fugla, egg og dún.

Þrjár kynslóðir samankomnar á St Kilda 1880. Mynd:Getty

Minjar, sem sýna að búið var á eyjunum á bronsöld, hafa fundist en fyrstu skriflegu heimildirnar fyrir því eru frá því í um 1300. Fyrsta nákvæma skýrslan um St Kilda var skrifuð 1549 af prestinum Donald Munro. Hann skrifaði að eyjaskeggjar væru „fátækt og einfalt fólk sem vissi lítið um trúarbrögð“.

Aukin samskipti við umheiminn

Eftir því sem árin liðu jukust samskiptin við Skotland þrátt fyrir að samskiptaleiðirnar væru erfiðar. Sjóleiðin var erfið, oft úfinn sjór og ölduhæðin oft 12 til 15 metrar. Lengi vel var eina samskiptaleið eyjaskeggja við umheiminn að kveikja bál í þeirri von að skip, á leið fram hjá, myndi sjá það.

Á nítjándu öld jukust samskiptin við umheiminn og eyjaskeggjar urðu sífellt háðari innfluttum mat og öðru frá meginlandi Skotlands. 1876 var matarskortur á eyjunni og í von um skjóta aðstoð var tekið upp nýtt samskiptakerfi sem var nefnt „mailboat“ (póstbátur). Bréfi var þá komið fyrir í flösku eða tinboxi sem var sett í trékassa sem var festur við uppblásna kindablöðru sem gegndi hlutverki flotholts. Þessu var síðan kastað í sjóinn í þeirri von að þetta ræki að landi í Skotlandi. En sjórinn var erfiður viðureignar og margir af þessum „póstbátum“ fundust síðar við vesturströnd Noregs.

Á tuttugustu öldinni settu sjúkdómar og brottflutningur íbúa mark sitt á eyjuna. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 var dregið mjög úr samskiptum og viðskiptum við St Kilda.

Þann 29. ágúst 1930 rann svo lokadagur byggðar á eyjunni upp en þá voru síðustu 36 íbúar eyjunnar fluttir til meginlands Skotlands. Síðan hefur ekki verið föst búseta á eyjunum en þær eru stundum notaðar til æfinga af breska hernum. Fuglafræðingar sækja einnig þangað enda einstakt fuglalíf. St Kilda er á heimsminjaskrá UNESCO.

2016 lést Rachel Johnson, 93 ára að aldri, en hún var síðasti íbúi St Kilda sem lést. The Guardian skýrði frá þessu.

Rústir byggðarinnar á St. Kilda. National Trust for Scotland
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“
Pressan
Fyrir 1 viku

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband
Pressan
Fyrir 1 viku

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart
Pressan
Fyrir 1 viku

Ung stjarna var ekki öll þar sem hún var séð

Ung stjarna var ekki öll þar sem hún var séð
Pressan
Fyrir 1 viku

Hafa risavaxnir menn einhvern tímann verið til?

Hafa risavaxnir menn einhvern tímann verið til?
Pressan
Fyrir 1 viku

Athyglisverðar myndir prýða 1.600 ára gamlar myntir sem fundust á Ermarsundseyjunum

Athyglisverðar myndir prýða 1.600 ára gamlar myntir sem fundust á Ermarsundseyjunum