Maður sem beraði sig fyrir framan skólabörn í Seljaskóla í gær lét aftur til skarar skríða í dag. Svo virðist sem lögreglu hafi ekki tekist að hafa hendur í hári hans.
Í nýjum tölvupósti frá skólastjóra Seljaskóla til forráðamanna barna segir að gæsla við skólann í frímínútum hafi verið aukin og óskað hafi verið eftir að lögregla yrði í nágrenni skólans í kringum frímínútur. Auk þess var brýnt fyrir nemendum að yfirgefa ekki lóðina. Síðan segir:
„Því miður og þrátt fyrir þessar aðgerðir hefur í dag annað álíka atvik komið upp rétt utan við skólalóð okkar og er það nú í rannsókn hjá lögreglu. Í kjölfar þessa höfum við ákveðið að nemendur skólans verði inni í skólahúsnæðinu í frímínútum dagsins. Skólinn vinnur áfram í þéttu samstarfi við lögregluna sem leggur mikla áherslu á að leysa málið. Haft hefur verið samband við forráðamann þess barns sem varð fyrir atvikinu í dag og mun frístundaheimilum og Íþróttafélagi Reykjavíkur gert vart við þær aðgerðir sem við höfum gripið til.“
Segir í niðurlagi bréfsins að tilhögun frímínútna morgundagsins verði ákveðin í samráði við lögreglu.
Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar. Málið er sagt vera á borði miðlægrar rannsóknadeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins.