Samkvæmt samningi Breta og ESB, sem tók gildi 1. janúar, þarf að skila útflutningsskýrslum þegar ferskar matvörur eru fluttar til Norður-Írlands og tollverðir eiga að skoða farmana.
Norður-Írland er hluti af Stóra-Bretlandi og þar með ekki lengur meðlimur í ESB en svæðið nýtur ákveðinnar sérstöðu samt sem áður til að tryggja brothættan friðinn. Landamærin til Írlands eru opin en Írland er í ESB. Þar með eru galopin landamæri á milli Norður-Írlands og innri markaðar ESB. Til að virða landamærin við Írland kveður samningurinn á um að landamæri séu í Írlandshafi.
Flutningsaðilar eru enn að læra á nýja kerfið og margir hafa ekki haft nógu góða stjórn á pappírsvinnunni en að auki hefur viss skriffinnska hlaupið á ferlin og það er ekki til að auðvelda vöruflutningana.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði fyrir helgi að ef þessi vandamál verða viðvarandi og ESB standi fast á því að túlka samninginn þannig að Bretum finnist það óréttlátt eða ónauðsynlegt muni þeir grípa til aðgerða til að leysa málin upp á eiginn spýtur. Hann sagði þó rétt að bíða aðeins og sjá hvernig málin þróast, hér sé um byrjunarörðugleika að ræða hvað varðar matvælaflutninga til Norður-Írlands.