Wolfgang Schäuble, forseti þingsins, vill láta skoða hvernig er hægt að efla gæsluna við þinghúsið. Ríkisstjórnin hefur beðið sendiráðið í Washington um skýrslu um hvernig hlutirnir gátu farið svona úr böndunum í Washington.
Schäuble sendi Nancy Pelosi, leiðtoga Repúblikana í fulltrúadeildinni, bréf þar sem hann fordæmi árásina og ofbeldisverkin og varpaði sökinni að hluta á Donald Trump. Angela Merkel, kannslari, sagðist vera reið og leið yfir árásinni og að hluti af ábyrgðinni á henni lægi hjá Donald Trump því hann hafi ekki viljað játa ósigur sinn í forsetakosningunum í nóvember.
En það voru ekki allir Þjóðverjar ósáttir við árásina á bandaríska þinghúsið því Trump á sína stuðningsmenn í Þýskalandi eins og víðar. Dagblaðið Der Tagesspiegel birti nokkur ummæli sem þýskir stuðningsmenn Trump skrifuðu við myndband á YouTube af atburðunum í Washington. Í því sést lögreglumaður víkja undan æstum múgnum.
„Dásamlegt að sjá þetta. Svona vil ég líka sjá í Berlín. Lengi lifi forseti Bandaríkjanna, lengi lifi Donald Trump,“ skrifaði einn. „Látið ykkur hlakka til meira af þessu. Um allan heim. Truflið þið friðinn með kórónuveiru? Þá fáið þið ringulreið í staðinn!“ skrifaði annar. Á Facebooksíðu nýnasistahreyfingarinnar NPD var árásinni einnig fagnað.
Þetta veldur þýskum yfirvöldum áhyggjum. Stephan Kramer, yfirmaður leyniþjónustunnar í Thürningine, segir að atburðirnir í Washington muni „hvetja öfgahægrimenn og öfgasinna sem afneita kórónuveirufaraldrinum“. Hann segir að von þessara öfgamanna sé að þegar svona lagað geti gerst í Bandaríkjunum, leiðtogaríki lýðræðisríkja, þá geti þetta einnig gerst „hjá okkur“. Því þurfi Sambandsþingið og þing sambandarsíkjanna að vera undir árásir búin.
Skjót viðbrögð þingsins og innanríkisráðuneytisins má rekja til að í ágúst reyndu nokkur hundruð mótmælendur að komast inn í þinghúsið. Þeir komust í gegnum fyrstu varnarlínuna og upp tröppurnar að þinghúsinu en þar stöðvaði lögreglan þá. Margir mótmælendanna báru fána öfgahægrihreyfingarinnar Reichsbürger en hún viðurkennir ekki Þýskaland nútímans.