„Við erum núna á versta punkti faraldursins. Í framtíðinni munum við hafa bóluefni en tölurnar eru hærri núna en fyrr í faraldrinum, töluvert hærri,“ sagði Chris Whitty, landlæknir, í samtali við BBC í gær. Hann sagðist búast við að næstu vikur verði „hættulegastar“.
Hann sagði að rúmlega 30.000 COVID-19-sjúklingar séu nú á sjúkrahúsum í landinu en þeir voru 18.000 þegar faraldurinn var í hámarki í apríl. „Núna er staðan sú í Bretlandi öllu að um 1 af hverjum 50 er smitaður og í Lundúnum er það 1 af hverjum 30,“ sagði Whitty. „Það eru mjög miklar líkur á að ef þú hittir einhverja að óþörfu að þeir séu með COVID,“ sagði hann einnig.
Fyrir um viku tóku harðar sóttvarnaaðgerðir gildi í landinu en það er í þriðja sinn sem gripið er til svo harðra aðgerða. CNN segir að margir óttist að landsmenn séu í vaxandi mæli að gefast upp á að fara eftir þessum reglum því smitum fer fjölgandi þrátt fyrir þær.
Whitty lagði áherslu á það í samtalinu við BBC að fólk eigi samskipti við eins fáa og hægt er til að koma í veg fyrir að ástandið versni enn frekar.
CNN segir að vegna þess hversu margir látist af völdum COVID-19 þessa dagana eigi mörg líkhús erfitt með að taka við öllum. Í Surrey í suðurhluta Englands geta líkhúsin tekið við 600 í einu en ástandið er svo slæmt að bráðabirgðalíkhúsi hefur verið komið upp sem getur tekið 800 lík.