Fox segir að McCarthy, sem er þingmaður Kaliforníu, taki undir það að Trump beri ábyrgð á því að æstur múgur réðst á þinghúsið með þeim afleiðingum að fimm manns létust. Hvíta húsið hefur ekki enn sagt neitt um frétt Fox.
Í gærkvöldi tilkynnti Hvíta húsið að neyðarástand muni ríkja í Washington D.C. dagana fyrir og eftir embættistöku Joe Biden en hún fer fram þann 20. janúar. Með þessari ákvörðun geta borgaryfirvöld og alríkisyfirvöld samhæft vinnu sína varðandi öryggismál í borginni í tengslum við embættistökuna. Alríkislögreglan FBI óttast að vopnaðir hópar muni mótmæla í höfuðborgum allra 50 ríkja Bandaríkjanna og í Washington D.C. á næstu dögum vegna embættistöku Joe Biden.
Í gærkvöldi var einnig skýrt frá því að Mike Pence, varaforseti, og Trump hefðu rætt saman í fyrsta sinn síðan ráðist var á þinghúsið. Þeir eru sagðir hafa fundað í Hvíta húsinu. Heimildarmaður sagði að þeir hafi rætt um næstu daga og hverju þeir hafi fengið áorkað síðustu fjögur árin. Heimildarmaðurinn sagði að þeir hafi verið sammála um að þeir sem réðust á þinghúsið hafi brotið lög og séu ekki fulltrúar „America First“ hreyfingarinnar sem styður Trump.