Poppsálin er nýtt poppmenningarlegt hlaðvarp með sálfræðilegu ívafi. Fjallað er um ýmis sálfræðileg málefni sem tengjast poppmenningu sem og áhugaverðar rannsóknir og pælingar innan sálfræðinnar. Hér neðst má nálgast tengla á fyrstu tvo þættina sem báðir eru tileinkaðir prinsessu poppsins.
Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari með MS-gráðu í sálfræði, er umsjónarkona hlaðvarpsins.
„Þetta byrjaði allt með Britney Spears minni. Ég hef verið aðdáandi, jafnvel leynilegur aðdáandi, í langan tíma eða frá því fyrsta platan kom út Baby one more time, árið 1999. Þegar ég fór að eldast þá breyttist áhuginn minn á Britney og fór að snúast um andlegu heilsu hennar en hún hefur gengið í gegnum ýmislegt og lengi verið á milli tannanna á fólki. Margir muna til dæmis eftir því þegar hún lét raka af sér allt hárið og réðst á ljósmyndara með regnhlíf,“ segir Elva.
Enn ekki komin aftur með sjálfræðið
Í nóvember fór Elva að lesa mér meira til um Britney og hennar stöðu þegar hún höfðaði mál gegn föður sínum og vildi losna undan forræði hans, en Britney hefur verið undir stjórn föður síns í 12 ár. Hún missti sjálfræðið árið 2008 eftir að hafa verið nauðungarvistuð á geðdeild og hefur ekki náð að öðlast sjálfstæði aftur eftir það.
Hreyfingin #FreeBritney hófst árið 2009, eftir að faðir Britney fékk forræði yfir henni og hefur hreyfingin verið mishávær í gegnum árin. Þessi hreyfing varð aftur mjög áberandi árið 2019 þegar Britney aflýsti Vegas sýningunni sinni, að hennar sögn vegna veikinda föður síns. Á svipuðum tíma hættir lögfræðingur hennar að starfa hjá henni, en hann hafði verið lögráðamaður Britney frá upphafi ásamt föður hennar. Lögfræðingurinn sagði frá því að það sem væri í gangi í lífi Britney væri óverjandi og hann gæti ekki lengur unnið með fjölskyldunni.
Dularfullt símtal
Á þeim tíma birtist líka upptaka af símtali þar sem ónafngreindur maður hringir inn í vinsælt hlaðvarp sem nefnist Britney Gram. Hann sagðist hafa starfað á lögfræðistofu sem sæi um mál Britney Spears og gæti ekki annað en stigið fram og sagt frá áhyggjum sínum. Hann talaði um að faðir Britney hefði bannað dóttur sinni að halda sýninguna árið 2019 þar sem hún hefði hætt að taka inn lyfin sín. Hann hélt því fram að verið væri að gripið hefði verið til mun dramatískari aðgerða en þörf væri á og það að Britney væri ekki frjáls væri stór skrítið.
Í upphafi ársins 2019, þegar Britney aflýsti Vegas sýningunni sinni sem hafði verið mjög vinsæl fram að því var hún aftur vistuð á geðdeild. Talið er að Britney sé að glíma við andleg veikindi og þurfi að huga vel að eigin heilsu og líðan. Í kjölfarið af þessu öllu saman fór hreyfingin #FreeBritney að verða áberandi aftur þar sem þau töldu að Britney væri vistuð á geðdeild gegn eigin vilja. Þau töldu einnig að hún væri fangi föður síns og að hún hefði við svipt sjálfræði á fölskum forsendum og að faðir hennar væri að græða á tá og fingri á þessu fyrirkomulagi.
Elva segist hafa velt fyrir sér hvernig það gæti gerst að svona ung, heimsfræg og moldrík kona gæti misst frelsið svo auðveldlega. „Af hverju hún hefur verið undir stjórn föður síns í svo langan tíma. Ég vildi kanna hvað felst í því að missa sjálfræðið og hvað þurfi að koma til. Ég velti fyrir mér hvort Britney sé fangi föður síns eða mun veikari en okkur grunar.“
Hámhorf á heimildaþætti
Áður Elva vissi af var hún búin að hlusta á óteljandi hlaðvörp, lesa greinar um efnið og hámhorfa á heimildaþætti um Britney. „Í stað þess að verja tímanum á kvöldin í að lesa góða bók hékk ég yfir Britney. Ég glósaði niður allt það helsta um málið og áður en ég vissi af var ég komin með 20 blaðsíður af glósum um popp prinsessuna. Eins og sjá má fékk ég einskonar þráhyggju fyrir Britney Spears. Eflaust bara einhver leið til að komast í gegnum skammdegið,“ segir Elva sem síðan vissi ekki alveg hvað hún ætti að gera við 20 blaðsíður af glósum um Britney Spears.
„Ég í eðli mínu mjög hvatís og hugsaði – Hey! Kannski hafa fleiri áhuga á þessu. Ég ákvað þarna að gera þetta að hlaðvarpsþætti. En svo var svo skemmtilegt að grúska í þessu og taka upp að ég ákvað að skuldbinda mig bara til að gera fleiri þætti þar sem ég fjalla um poppmenningu frá sálfræðilegu sjónarhorni. Sameina þarna þráhyggjurnar mínar tvær, sálfræði og poppmenningu,“ segir Elva.
Britney er bara byrjunin
„Mig langar einnig að kynna mér mál annarra frægra einstaklinga sem hafa farið út af sporinu, einnig langar mig að skoða sálfræðileg fyrirbæri sem gera tilraun til að skýra hegðun okkar mannfólksins.. T.d af hverjum eigum við það til að dýrka fræga einstaklinga og hreinlega missa vitið við það að sjá þau. Af hverju breytumst við í ótamin villidýr á fótboltaleikjum eða Justin Bieber tónleikum? Af hverju viljum við hlusta á sorglega tónlist þegar okkur líður illa?“ spyr hún.
Hér má hlýða á fyrstu tvo þættina af Poppsálinni sem báðir eru tileinkaðir Britney