Breyting á lögum um ársreikninga tók gildi um áramótin og eru nú ársreikningar og önnur skilaskyld gögn úr fyrirtækjaskrá fáanleg án endurgjalds. Eru nú ársreikningar og önnur gögn sjáanleg á sérstöku vefsvæði Skattsins, en heimild er til þess að innheimta gjald fyrir annars konar afhendingu gagna, til dæmis útprentuð.
Fram til þessa hafði Skatturinn innheimt gjald fyrir hverja uppflettingu og var gjaldið reiknað á hverja blaðsíðu, óháð því hvort gögnin væru afhent rafrænt eða útprentuð.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra fagnaði breytingunni á Facebook í gærkvöldi og sagði að aðgengi almennings að opnum upplýsingum væri aukið með henni. „Eðlilegt er – og löngu tímabært – að almenningur hafi greiðan aðgang að slíkum upplýsingum. Geiðari aðgangu að ársreikningum er til þess fallinn að auka aðhald með rekstri félaga, stuðla að upplýstri umræðu og efla þannig traust almennings,“ skrifar Þórdís.
https://www.facebook.com/thordiskolbrunxd/posts/1341597332839729