Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir og maður ársins hjá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, virðist ætla að enda árið 2020 í söng. Hann og hljómsveitin Vinir og vandamenn gáfu nefnilega út lagið 2 0 2 0 Drífðu þig út!, í gær.
Líkt og titill lagsins gefur til kynna er um að ræða kveðjusöng fyrir árið sem nú er að líða. Eins og margir hafa Vinir og vandamenn verið orðnir svolítið þreyttir á árinu 2020, og biðja um að fá nýtt ár sem fyrst.
Leifur Geir Hafsteinsson er skráður fyrir lagi og texta. Stórstjarna sveitarinnar er þó óumdeilanlega Þórólfur, enda eitt helsta andlit baráttunnar við heimsfaraldur kórónaveirunnar hér á landi. Hann á stuttan einsöngsbút í laginu, þar sem hann syngur: „Já ég hef elst um meira en fimmtán ár!“ og vísar þar til þess að það hefur verið nóg að gera á árinu.
Hér má svo hlusta á lagið: