Mannréttindasamtök segja að ákærurnar á hendur henni hafi aðeins verið tilkomnar vegna baráttu hennar fyrir auknum réttindum kvenna og vegna þess að hún átti í samskiptum við blaðamenn, stjórnarerindreka, annað baráttufólk fyrir mannréttindum. Hún hefur barist ötullega fyrir því að endi verði bundin á hin miklu völd sem karlar hafa yfir konum í landinu en þær geta sig varla hreyft nema með samþykki þeirra.
Dómstólinn vísaði sumum ákæruatriðum frá og lét afplánun refsingarinnar gilda frá því að Hathloul var handtekin. Hún verður því hugsanlega látin laus eftir um tvo mánuði að sögn fjölskyldu hennar.
Hathloul, sem er 31 árs, er líklega þekktust fyrir baráttu sína fyrir því að konur fái að aka bílum í Sádi-Arabíu. Hún hefur verið í haldi síðan í maí 2018 en hún var þá handtekin í aðgerðum stjórnvalda gegn baráttufólki fyrir réttindum kvenna. Fólkið var stimplað landráðamenn og sagt aðstoða óvini landsins. Aðeins viku eftir handtökurnar fengu konur réttindi til að aka bílum.
Handtökurnar voru taldar skýr skilaboð frá Mohammed bin Salman, krónprinsi og stjórnanda landsins, um að pólitísk mótmæli yrðu ekki liðin. Landið er konungsdæmi og hefur einveldið styrkst enn frekar síðan Mohammed komst til valda. Hann hefur komið ákveðnum félagslegum umbótum á en jafnframt látið handtaka keppinauta sína úr konungsfjölskyldunni, fólk úr viðskiptalífinu og þá sem eru ekki sömu skoðunar og hann.
Washington Post bendir á að tímasetning dómsins sé kannski ekki tilviljun ein því nú er stutt í að Joe Biden taki við forsetaembættinu í Bandaríkjunum en hann hefur sagt að hann ætli að endurskoða samband Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu vegna meintra mannréttindabrota stjórnvalda í Sádi-Arabíu.