Á vefsíðu fjártæknifyrirtækisins Myntkaup ehf. er hægt að kaupa og selja Bitcoin. Hefur Fréttablaðið eftir Patreki Maroni Magnússyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að fyrirtækið hafi strax fundið fyrir áhuga landsmanna á myntinni en vefsíðan var opnuð fyrr á árinu. Haft er eftir honum að áhuginn hafi aukist eftir því sem liðið hefur á árið.
„Viðtökurnar strax í byrjun voru framar öllum okkar vonum, sérstaklega hjá eldri kynslóðinni. Eftir því sem gengi myntarinnar hefur hækkað á árinu hefur áhugi Íslendinga greinilega aukist samhliða því,” er haft eftir honum.
Hann nefndi sem dæmi að það sem af er desember hafi Íslendingar stundað viðskipti með Bitcoin fyrir um tvær milljónir evra en það svarar til um 333 milljóna króna. „Það er sextánföld aukning frá því í október þannig að það er alveg ljóst að áhuginn fer vaxandi,“ er haft eftir honum.