Laude tengdi þetta ekki við neitt slæmt og velti þessum orðum Warner ekki frekar fyrir sér. Hann hefur látið hafa eftir sér að hann hafi verið orðlaus þegar hann heyrði að lögregluna grunaði að Warner stæði á bak við sprenginguna. Þrír særðust í henni og mikið eignatjón varð.
Bandarískir fjölmiðlar hafa lýst Warner sem sérvitringi sem hafi gefið ungri konu, Michelle Swing, nokkrar fasteignir áður en hann sprengdi sprengjuna. Swing býr í Kaliforníu. Hann sendi henni einnig bréf sem hún hefur nú afhent alríkislögreglunni FBI.
Daily Mail segir að Warner hafi einnig staðið í deilum við móður sína, sem er 85, um fjármál eftir að faðir hans og bróðir létust.
Lögreglan rannsakar nú meðal annars hvort það hafi verið hræðsla Warner við 5G farsímakerfið sem var ástæðan fyrir sprengjutilræðinu. Hann lagði húsbílnum fyrir framan byggingu símafyrirtækisins AT&T og sprengi sprengjuna. Það þykir einnig tengja Warner enn frekar við fyrirtækið að faðir hans starfaði hjá því.
Warner bjó yfir þeirri tæknikunnáttu sem til þurfti til að búa sprengjuna til að sögn bandarískra fjölmiðla. Hann er einnig sagður hafa haft leyfi til að meðhöndla og nota sprengiefni áður fyrr. Hlutar úr líki Warner fundust á vettvangi sprengingarinnar.