En það var ekki nóg og því þurfti að setja upp hillur í gámunum til að auka geymslurými þeirra enn frekar að sögn New York Times. Útfararstofur, kirkjugarðar og líkbrennslur réðu ekki við álagið. Ættingjar þorðu ekki að bera kennsl á lík ástvina sinna af ótta við að smitast. Byrjað var að grafa lík, sem ekki var búið að bera kennsl á, í fjöldagröf á Hart Island sem er lítil eyja rétt við borgarmörkin.
Þann 9. apríl voru birtar loftmyndir af fjöldagröfunum og vöktu þær reiði í borginni, sérstaklega hjá þeim sem höfðu misst ástvini og óttuðust að þeir yrðu settir í fjöldagrafirnar. Í kjölfarið breyttu yfirvöld um vinnuaðferðir og hættu að grafa líkin í fjöldagröfum og settu þau í frystigáma sem var komið fyrir á hafnarsvæði í Brooklyn. Í lok maí voru 2.137 lík í frystigámum þar. Þar áttu þau að vera þar til hægt væri að bera kennsl á þau og jarðsetja. Mörg þeirra voru þar vikum og mánuðum saman.
Þrátt fyrir að dánartölurnar hafi lækkað og kennsl hafi verið borin á mörg lík þá eru enn fullir frystigámar á hafnarsvæðinu. New York Times segir að 530 lík, hið minnsta, séu enn í gámum þar.
Smitum og dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar hefur fjölgað mikið að undanförnu í Bandaríkjunum og eru nú fleiri en þegar verst lét í byrjun apríl. Heilbrigðisyfirvöld óttast að andlátum af völdum COVID-19 muni fjölga enn frekar vegna þess hversu margir smitast af veirunni. Í New York hafa dauðsföll af völdum COVID-19 næstum fjórfaldast síðan í byrjun nóvember. Sjúkrahús og heilbrigðisyfirvöld búa sig því undir enn frekari hörmungar.