Um ellefuleytið í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 109 í Reykjavík. Ung kona missti stjórn á bíl sínum og ók á tré. Fann hún fyrir eymslum í handlegg og fótlegg. Samkvæmt dagbók lögreglu ætlaði konan sjálf á Bráðadeild til aðhlynningar. Bíllinn var fluttur burt af vettvangi.
Um þrjúleytið í nótt var tilkynnt um eld í bíl í hverfi 111. Slökkvilið kom á vettvang. Annar bíl sem lagt var beint á móti brennandi bílnum skemmdist einnig.
Klukkan hálftvö í nótt var tilkynnt um húsbrot, þjófnað og eignaspjöll í Garðabæ. Hafði verið farið inn í ólæsta bíla, gramsað og mögulega stolið munum. Einnig var brotið upp lyklabox og stolið lyklum.
Laust fyrir klukkan níu í gærkvöld var maður handtekinn í miðbænum, grunaður um líkamsárás og hótanir. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins en árásarþolinn fór á bráðadeild til aðhlynningar. Ekki er vitað um áverka hans.
Um hálftólfleytið var tilkynnt um bruna í hverfi 105. Var þetta eldur í kertaskreytingu á stofuborði, en enginn var heima. Slökkvilið kom á vettvang en eldurinn var að mestu búinn þegar menn fóru inn. Íbúðin var hins vegar full af reyk.