Egill Helgason reiknar með rólegu aðfangadagskvöldi. Hann borðar hamborgarhrygg og ætlar að halda aftur af sér í sætindunum. Honum finnst jólaskraut ekki endilega eiga að vera sérlega smekklegt.
Hvernig verður aðfangadagskvöld hjá þér?
Það verður mjög rólegt aðfangadagskvöld með fjölskyldunni og tengdaforeldrum – þannig að við verðum ekki mörg. Því miður falla hefðbundin jólaboð eiga nokkuð langa sögu niður – kannski að maður reyni að hitta eitthvað af því skyldfólki utandyra þótt ekki verði nema í mýflugumynd.
Það er grínast með að sumir séu fegnir að sleppa við jólaboð þessi jólin, en það á ekki við um mig, mér finnst gaman í jólaboðum og innilega vænt um fólkið sem ég hitti þar.
Hvað borðar þú í kvöld?
Við borðum hamborgarhrygg, en svo elda ég sjálfur nokkrar rjúpur milli jóla og nýárs. Ég ætla ekki að borða mikið af sætindum eða snarli – og er algjörlega harður á að halda áfram löngu göngutúrunum sem ég hef farið í allan kóvídtímann. Yfirleitt er það annað hvort úr Miðbænum út í Gróttu eða tveggja hæða leiðin sem ég kalla – þá fer ég bæði upp á Landakotshæð og Skólavörðuholt.
Hvað langar þig mest að fá í jólagjöf?
Jólagjöf? Ást og heilsu og frið og allt það. Þess utan finna þau Sigurveig og Kári alltaf eitthvað skemmtilegt og óvænt til að gefa mér. Í fyrra fékk ég til dæmis glæsilegt koparslegið Soda Stream tæki og í hittifyrra Kindle lestölvu.
Mér heyrðist reyndar á Sigurveigu að hún væri að hugsa um að gefa mér ryksugu.
Ertu með jólatré?
Jólatréð þetta árið er stórmerkilegt. Það er broddgreni sem ég fékk í gróðrarstöðinni Þöll fyrir ofan Hafnarfjörð. Broddgreni er sjaldgæft sem jólatré og mér skilst að þetta hafi verið fellt fyrir vangá. Þannig að það eru ekki margir með svona tré.
Það er ég sem set upp tréð og skreyti mestanpart. Við kærum okkur ekki um mjög stílhrein jólatré, skrautið er aðallega kúlur sem eru komnar héðan og þaðan, mjög ósamstæðar en hafa hver sína sögu.
Mesta djásnið er pólska jólakúlan sem á að vera af Þingvallakirkju en er það í rauninni ekki enda er áletrunin á því Pingvallakirkja.
Mér finnst að jólaskraut eigi ekki endilega að vera sérlega smekklegt. Við erum með dálítið af seríum úti í garði og þær eru allar vel marglitar. Annað djásn er svo fjárhúsið með Jesúbarninu. Hið upprunalega barn brotnaði fyrir nokkrum árum og við fengum annað, en það er í nokkurri yfirstærð miðað við fjárhirðana, foreldrana og vitringana.