Fjölmiðlar fengu upplýsingar um að ráðherra í ríkisstjórninni hefði verið í samkvæminu í tölvupósti sem lögreglan sendi frá sér í morgun með yfirlit yfir helstu tíðindi næturinnar. Heimildir DV herma að það að taka fram í tölvupóstinum að ráðherra í ríkisstjórninni hafi verið í samkvæminu brjóti gegn þeim vinnureglum sem í gildi eru um útsendingu þessara yfirlita. Samkvæmt vinnureglunum má ekkert koma fram í þeim sem getur talist persónugreinanlegt. Það að segja að ráðherra í ríkisstjórninni hafi verið í samkvæminu megi flokka sem persónugreinalegar upplýsingar því ráðherrarnir eru 11 og því ekki margir sem koma til greina.
Heimildir DV herma einnig að varðstjórar, sem sjá um að senda þessar tilkynningar til fjölmiðla, séu margir hverjir ósáttir við að þurfa að sjá um það og bendi á að sérstakur fjölmiðlafulltrúi sé starfandi hjá embættinu og það eigi að vera í hans verkahring að senda þessar tilkynningar til fjölmiðla.