Það sem allt bláeygt fólk á sameiginlegt er að það á einn sameiginlegan forföður, Evrópubúa sem var uppi fyrir 6.000 til 10.000 árum. Þetta var fyrsta manneskja sem þróaði með sér stökkbreytinguna sem veldur því að fólk er með blá augu. IFLS.com skýrir frá þessu.
Fram kemur að í upphafi hafi allir verið brúneygðir en vegna stökkbreytinga á geninu OCA2 séu nú til margir mismunandi augnlitir í dag, blár, grænn og brúnn, svo eitthvað sé nefnt.
Vísindamenn hafa nú kortlagt hvernig bláu augun þróuðust og hafa komist að því að það var stökkbreyting í geninu HERC2 sem varð til þess að fólk fékk blá augu. HERC2 stökkbreytingin „slekkur“ á OCA2 geninu og fólk fær blá augu.
Þessi stökkbreyting átti sér stað hjá Evrópubúa fyrir 6.000 til 10.000 árum síðan. Það má því kannski segja að allt bláeygt fólk sé í sömu fjölskyldunni!