Lögreglan flokkar málið sem brot á reglum um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu og brot á reglum um fjöldasamkomu.
Í tilkynningu lögreglunnar segir að töluverð ölvun hafi verið í samkvæminu og flestir gestanna hafi haft áfengi við hönd. Enginn þeirra var með andlitsgrímur og segja lögreglumenn, sem voru á vettvangi, að nánast hvergi hafi fjarlægðarmörk verið virt. Þeir sáu aðeins þrjá sprittbrúsa í salnum.
Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og var þeim gerð grein fyrir að skýrsla yrði rituð um málið. Gestunum var vísað út. Flestir þeirra settu upp andlitsgrímu áður en þeir gengu út. Sumir kvöddu með faðmlögum og enn aðrir með kossum. „Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.