Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, nýs sameinaðs sveitarfélags á Austfjörðum, segir enn óvíst hversu margir munu þurfa á húsnæði að halda yfir jólin vegna áframhaldandi rýminga.
Í tilkynningu almannavarna kemur fram að þó að niðurstöður rannsókna sérfræðinga í gær og í dag hafi litið vel út sé ljóst að hlýindaskeið sé fram undan sem grafið gæti undan stöðugleika í jarðvegi á svæðinu. Rýmingu verður því ekki aflétt frekar fyrr en 27. desember hið fyrsta.
Enn hafa á þriðja hundrað manns ekki enn snúið heim til Seyðisfjarðar og enn er óvíst hversu mörgum þarf að sjá fyrir húsnæði. „Eitthvað af þessu fólki ákvað að fara jafnvel bara suður og vera þar yfir jólin. Það kemur í ljós á næstunni hversu mörgum við þurfum að útvega húsnæði,“ sagði Björn.
Björn var á Seyðisfirði fyrr í dag og tók þar á móti ráðherrum sem nú eru í heimsókn á svæðinu. Björn segist hafa þó eytt megni dags í húsnæði aðgerðastjórnar á meðan ráðherrarnir skoðuðu sig um á svæðinu. Aðspurður hvort Björn hafi orðið vitni að meintri uppákomu sem fjallað var um í fréttum fyrr í dag í Ferjuhúsinu í bænum segist hann ekki hafa orðið vitni að neinu slíku.
„Hér er fólk enn í sjokki, vissulega, en ég varð ekki vitni að neinu slíku,“ sagði Björn.
Björn segir að undirbúningur að þrifum sé þegar hafinn en sjálf aðgerðin geti ekki hafist á meðan bærinn sé enn á hættustigi almannavarna. Hann segir bæjaryfirvöld nú vinna með náttúruhamfaratryggingum, minjavernd og eigendum húsanna sem skemmdust í skriðunum að kortlagningu næstu skrefa. Aðspurður hvort hár aldur húsanna og friðun margra þeirra flæki málin segir hann svo ekki vera.
Leitað hefur verið í reynslu af fyrri ofanflóðum við skipulagningu á hreinsunarstarfi, segir Björn. „Það geta verið persónulegir og verðmætir munir í jarðveginum og þegar hreinsunarstarf hefst verður að stíga varlega til jarðar. Jarðvegi úr skriðunum verður mokað á ákveðinn stað þar sem hann verður skoðaður betur áður en honum verður svo endanlega fargað,“ segir Björn. Hann segir þetta gert af fenginni reynslu af hreinsunarstarfi í kjölfar snjóflóða. „Það er auðvitað ekki mikil reynsla af svona skriðum, en við höfum reynslu af annars konur ofanflóðum, snjóflóðum, sem við erum að sækja í og höfum verið í sambandi við sérfræðinga varðandi það.“
Björn segir að meta verði hvert og eitt hús þegar kemur að ákvarðanatöku um enduruppbyggingu. Hann segir mikið fagnaðarefni hversu vel hefur tekist að skrásetja teikningar af húsum, og segir það muni auðvelda hugsanlega enduruppbyggingu húsa á svæðinu. „Hér á svæðinu hefur fólk hugað vel að sínum húsum og farið í endurbætur sem hafa kallað á að teikningar séu gerðar,“ útskýrir Björn.
Næstu verkefni verða svo að fara yfir hættumatið á svæðinu og skoða uppbyggingu ofanflóðavarna þar segir Björn. “Við höfum auðvitað skoðað snjóflóðahættuna náið, en hún er meiri sunnan megin í bænum. Nú þarf að skoða skriðuhættuna norðan megin.“