fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Össur hjólar í yfirvöld og þríeykið – „Dæmalaust klúður“

Jón Þór Stefánsson
Mánudaginn 21. desember 2020 12:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, gagnrýnir yfirvöld og þríeykið harðlega í færslu sem birtist á Facebook fyrir skömmu. Færsla hans birtist í kjölfar upplýsingafundar Almannavarna vegna kórónuveirunnar, þar sem koma bóluefnis til landsins var helsta umræðuefnið. Líkt og mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum þá munu færri skammtar af bóluefni koma til landsins snemma á næsta ári en áður var búist við.

Fjallað hefur verið um upplýsingaóreiðu í málinu, en Össur tekur svo sannarlega undir það, enda ber færsla hans yfirskriftina „Óreiðan kringum bóluefnið“. Hann lýsir málinu sem algjöru klúðri, og segir að málið muni verða mjög dýrkeypt.

„Upplýsingar yfirvalda, þríeykis og annarra, um bóluefni er varla hægt að kenna við annað en óreiðu. Fyrir skömmu börðu yfirvöld bumbur yfir því að vera búin að semja við Pfizer um bóluefni fyrir alla þjóðina. Þau töluðu um að bólusetning yrði kláruð á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2021. Þau virtust telja að nóg bóluefni yrði til reiðu innan skamms. Heilbrigisyfirvöld Reykjavík skildu það þannig að þau þyrftu að vera reiðubúin til að bólusetja mikinn fjölda fólks á skömmum tíma. Þau unnu sitt verk af stakri prýði og kynntu áætlun, sem miðaði að því að hægt væri að bólusetja alla Reykvíkinga á örfáum dögum. Sama gilti væntanlega um alla þjóðina.

Á síðustu dögum hefur hins vegar komið í ljós að mjög mikið mun skorta upp á að bóluefnið berist í tíma. Nú er talað um að bólusetning verði ekki lokið fyrr en undir lok árs. Fulltrúar kerfisins fóru í flæmingi undan spurningum Björns Inga um bóluefnin á upplýsingafundinum í dag. Skýr svör komu ekki fram. Þar kom hins vegar fram sú ótrúlega staðreynd að þó íslensk stjórnvöld hefðu gert samninga við einstaka lyfjarisa þá hefðu þau EKKI samið um afhendingartíma. Þetta er í reynd ótrúlegt og virkar satt að segja sem dæmalaust klúður. Hverjir gengu svona laust frá samningum og hver ber ábyrgð á því? Vissu ráðherrar ekki af þessu þegar þeir sköpuðu væntingar hjá þjóðinni – m.a. ferðaþjónustunni – um að búið yrði að bólusetja þjóðina á fyrri part árs?

Þessi staða verður Íslendingum dýr í lífsgæðum og kostnaði. Verði bólusetningum ekki lokið fyrr seinni part árs – þvert ofan í væntingar sem stjórnvaldið skapaði – þá þýðir það að eitt ferðaþjónustusumar til mun glatast. Það kostar þjóðarbúið tugi milljarða og líklega fjölda fyrirtækja sem hafa getað dregið fram lífið. Séð af Vesturgötunni virkar þetta afleit frammistaða hjá heilbrigðisyfirvöldum.“

Össur spyr hvort ekki eigi að gera eitthvað í málinu, hvort það eigi bara að bíða og sjá hvort að hlutirnir „reddist“, eða hvort eigi að líta til bóluefna frá Rússlandi og Kína.

„Núna er spurningin hins vegar þessi: Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þessari nýju stöðu – sem þau sjálf virtust ekki lesa úr eigin gerningum? Ætla þau bara að sitja á sínum rassi og sjá hvort þetta reddist ekki gegnum Pfizer og AstraXeneca? Þau fyrirtæki virðast þó í reynd hafa beitt upp gagnvart þörfum Íslendinga. Hið síðara er þar að auki með með bóluefni sem virðist miklu síðra bóluefnum sem verið er að framleiða til dæmis í Kína og Rússlandi.

Í þessari stöðu þurfa stjórnvöld vitaskuld að slást til að bjarga íslenskum hagsmunum. Mjálmið á upplýsingafundinum um að Íslendingar væru svo smáir að betra væri að vera í stóru samfloti virkjar hjákátlega andspænis þeirri staðreynd, að gegnum tengsl við æðstu ráðamenn Kína komu flugvélafarmar þaðan í sumar með grímur og annað sem Íslendinga skorti fyrir heilbrigðisþjónustuna. Gildir eitthvað annað um bóluefni?

Í Sameinuðu furstadæmunum og að ég best veit einu öðru arabaríki er verið að sprauta fólk með kínversku bóluefni sem hefur 86% virkni. Í Abu Dhabi hefur það staðið yfir í heilan mánuð. Annað bóluefni kínverskt virðist jafn gott. Um tólf önnur bóluefni kínversk eru að komast nálægt framleiðslustigi. Afhverju fara stjórnvöld ekki á sömu stúfa og í sumar, og hafa beint samband við kínversk stjórnvöld og fá þaðan bóluefni amk þangað til Pfizer fer að standa við samninga? Ríka fólkið í Evrópu sækist eftir bóluefnum þaðan af því buzzið hjá milljónamæringunum er að þar sé besta bóluefnið að finna. Hvað veit ég.“

Að lokum spyr hann hvort stefna stjórnvalda sé samanburðarhæf við Donald Trump og viðhorf hans til Kína. Hvort þau þori ekki að leita þangað á meðan að ferðaþjónustan og almennir borgar séu í erfiðri stöðu.

„Er það pólitískur rétttrúnaður a la Trump sem veldur að ekki má leita Kínverja? Hvað með rússnesku bóluefnin? Hvaða hagsmunir koma fyrst? Á meðan blæðir ferðaþjónustu og fleiri almennir borgarar munu eiga um sárt að binda en ella.“

https://www.facebook.com/ossur.skarphedinsson/posts/2510862732550920

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra