fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Lilja varð strax spennt fyrir Möggu Pálu – Sérstaklega eftir að mamma sagði mér að hún væri lesbía

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 19. desember 2020 12:00

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Sigurðardóttir var að senda frá sér sína áttundu glæpasögu. Hún segir pabba sinn hafa kynnt heimsbókmenntirnar fyrir henni en mömmu glæpasögurnar. Lilja og konan hennar hafa bráðum verið saman í þrjátíu ár. Þær halda hressar hænur að heimili sínu við Elliðavatn.

Hér má lesa í heild sinni forsíðuviðtal við Lilju sem birtist í helgarblaði DV 11. desember.

„Mitt prívatlíf er ósköp notalegt. Ég bý við Elliðavatn þar sem við Magga Pála, konan mín, vorum svo heppnar að finna fallegt gamalt hús með stóru landi og við höfum verið að dúlla okkur við að gera húsið og garðinn upp. Í vor, þegar það stefndi í að við yrðum svona mikið heima, þá fékk ég mér hænur. Það er nýjasta áhugamálið,“ segir Lilja Sigurðardóttir hlæjandi. Konan hennar er Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, og hafa þær komið sér vel fyrir í hlýlegu húsi við vatnið. Lilja segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á hænum, allt frá því hún þjálfaði bardagahana sem barn.

Ævintýragjarnir foreldrar hennar bjuggu með börnin fjögur um víða veröld og það var í litlu þorpi í Mexíkó sem hún kynntist hanaati. „Þegar ég var barn fór ég fyrir skóla og hljóp með bardagahana fyrir mann sem var fatlaður og gat því ekki sjálfur hlaupið með hanana sína. Þetta var fyrsta vinnan mín og ég fékk borgað fyrir að þjálfa þessa bardagahana. Mér fannst hanaatið spennandi þegar ég var krakki en ég held að ég gæti ekki horft á það núna,“ segir hún.

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur. Mynd/Ernir

Lilja heldur aðeins hænur – engan hana – og þær geta verið býsna ákveðnar. „Ef það er enginn hani þá verður bara ein hænan yfirhæna. Það er ströng goggunarröð og skýrt hver er foringinn. Hinar verða bara að hlýða. Yfirhænan þarf ekki að gogga í aðrar hænur því hún er með tvær bestu vinkonur sínar með sér sem sjá um að gogga í aðrar hænur. Yfirhænan byrjar líka að éta, síðan þær sem eru henni næstar og þær sem eru síðastar í goggunarröðinni fá afgangana. Þetta er kannski ekki svo ólíkt mannlegu samfélagi þó goggunarröðin sé öllu bókstaflegri hjá hænunum og þær eru ekkert að spara fantaskapinn er einhver hænan reynir að teygja sig of langt. Öðru hvoru getur komið inn í hænuhóp ný og metnaðarfull hæna sem vill vinna sig upp metorðastigann. Hún þarf þá að berjast fyrir sínu og þá verða átök og spenna um tíma. Þetta veltur líka hreinlega á persónuleika þeirra en ekki bara hvenær þær koma inn í hópinn. Mér finnst hænurnar vera afskaplega skemmtileg dýr og ég hef gaman af þeim. Þær borga svo leiguna með því að gefa okkur egg,“ segir hún hæstánægð.

Ævintýragjarnir foreldrar

Foreldrar Lilju eru Sigurður Hjartarson og Jóna Kristín Sigurðardóttir sem ólust upp á Akureyri. Lilja er fædd árið 1972 á Akranesi og er yngst fjögurra systkina. Hún var aðeins fimm ára þegar hún flutti þaðan með fjölskyldunni og lagðist í heimshornaflakk. Þau bjuggu í Svíþjóð, Mexíkó og á Spáni auk þess að ferðast um fleiri lönd, en komu alltaf reglulega til Íslands.

„Mamma og pabbi voru hálfgerðir hippar og víluðu ekkert fyrir sér að pakka bara öllu niður í ferðatöskuna og flytja milli landa. Pabbi stundaði rannsóknir á fornum handritum, hann var sérfróður í landafundum Kristófers Kólumbusar og við fluttum gjarnan á staði þar sem hann var að rannsaka einhver handrit. Auðvitað var þetta líka ævintýragirni í þeim,“ segir Lilja en faðir hennar var einnig vinsæll sögu- og spænskukennari auk þess sem hann stofnaði Hið íslenzka reðasafn þegar hann var kominn á eftirlaun.

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur. Mynd/Ernir

Miklir heimshornaflakkarar

Vegna mikilla flutninga á Lilja oft í vandræðum með að útskýra hvar hún ólst upp. „Ég tilheyri engri grúppu gamalla skólafélaga eða einhverjum sérstökum árgangi í neinum skóla. Þegar ég var yngri öfundaði ég stundum krakka sem voru alltaf í sama skóla og bjuggu alltaf í sama húsinu, þar sem jafnvel var merkt við á hurðarkarmi eftir því sem þau urðu hærri í loftinu. Ég fékk ekki þessa festu en í staðinn er ég með opnari huga fyrir heiminum og þekki fólk um alla veröld. Ég get fljótt komið mér fyrir hvar sem er og liðið eins og heima hjá mér.“ Hún segir að það gæti verið skemmtilegt að skrifa um hennar ævintýralegu æskuminningar: „Ég þyrfti bara að finna hvernig ég gæti breytt þeim í glæpasögu,“ segir hún glettin. Það er nefnilega þar sem ástríðan liggur – í skrifum glæpasagna.

Lilja sendi nýverið frá sér sína áttundu skáldsögu sem ber heitið Blóðrauður sjór. Við skrifin sótti hún innblástur í eitt umtalaðasta mannshvarf í sögu Noregs – hvarf Anne Elisabeth Hagen. Maðurinn hennar, Tom, hefur legið undir grun vegna hvarfsins en enginn veit enn hvað varð um Anne. „Blóðrauður sjór byrjar á því að vel stöndugur bisnessmaður kemur heim þar sem allt er á rúi og stúi, eiginkonan horfin og hans bíður lausnargjaldskrafa á eldhúsborðinu. Ég velti síðan upp ýmsum möguleikum, meðal annars hugmyndum sem hafa komið fram í Hagen-málinu. Það er eins og gullnáma fyrir glæpasagnahöfund þegar svona dularfull mál koma upp og maður fer að hugsa: Hvað ef?“ Í bókinni eru sömu aðalpersónur og þeirri síðustu frá Lilju, Helkaldri sól, þar sem lesendur kynntust hörkutólinu Áróru og rannsóknarlögreglumanninum Daníel. Hugmyndin er að lesendur geti fylgt þessum persónum í tveimur, jafnvel þremur bókum til viðbótar en í hverri þeirra sé nýtt mál sem þarf að leysa og því hægt að lesa bækurnar óháð hinum. Báðar þessar bækur hafa fengið mikið lof gagnrýnenda og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Þríleikur Lilju – bækurnar Gildran, Netið og Búrið – sem naut fádæma vinsælda var í raun „ein stór bók“ eins og hún kemst að orði og því nálgast hún nýju bækurnar á annan hátt. Áður en hún skrifaði þríleikinn samdi hún við Forlagið sem hefur gagnast henni vel á alþjóðlegum vettvangi.

Mamma glæpasagnafíkill

Lilja segir að henni hafi alltaf þótt gaman að skrifa en hún ákvað að skrifa sína fyrstu glæpasögu þegar Bjartur/Veröld stóð fyrir samkeppni þar sem leitað var að „hinum nýja Dan Brown“ en hann skrifaði Da Vinci lykilinn og fleiri metsölubækur. „Ég hugsaði með mér að ég gæti bara vel verið hinn nýi Dan Brown, skrifaði bók og sendi inn. Í millitíðinni kom bankahrunið og keppninni var í raun aflýst. Þrátt fyrir það ákváðu þau að gefa út tvö handrit sem höfðu verið send inn, fyrstu bókina mína og fyrstu bókina hans Ragnars Jónassonar. Við vitum þó ekkert hvort okkar hefði verið hinn nýi Dan Brown,“ segir hún glettin.

Það var mikið lesið á heimilinu þegar Lilja var að alast upp. „Ég var kannski smá skrýtin og einrænt barn. Frá því ég var lítil gerði pabbi leslista fyrir mig og þegar ég var tólf ára var ég búin að lesa allar heimsbókmenntirnar. Mamma var hins vegar glæpasagnafíkill og bækurnar sem hún stakk upp á fyrir mig voru allt öðruvísi. Ég hugsa að þaðan komi áhugi minn á glæpasögum. Það er alveg sérstök tegund af lestraránægju sem maður fær af því að lesa glæpasögur. Þar er hugarleikfimin á fullu og oft einhvers konar tilfinning fyrir réttlæti í lokin sem ég held að gefi fólki ákveðna ánægju, því í raunveruleikanum eru málalyktir ekkert alltaf réttlátar. Það sem glæpasagan hefur fram yfir fagurbókmenntir er sterk atburðarás sem heldur manni hugföngnum.“

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur. Mynd/Ernir

Mýtur um sambönd gay fólks

Þrátt fyrir að vera norrænn glæpasagnahöfundur segir Lilja að hún hafi í erlendum bókardómi lesið að hún væri hreinlega ekki nógu norræn. „Nýju sögurnar mínar eru alþjóðlegar og gagnrýnandinn kallaði þær eins konar blöndu af nordic noir og suðuramerískri telenóvellu. Atburðarásin er hröð og ótrúlegir hlutir geta gerst. Fyrir höfunda á mínum aldri held ég að sjónvarpið sé líka sterkur áhrifavaldur. Þegar við fluttum til Bandaríkjanna og svo til Mexíkó upplifði ég í fyrsta skipti sjónvarpsdagskrá allan sólarhringinn. Hér á Íslandi beið maður spenntur eftir eina barnatímanum sem var sýndur í vikunni en í Mexíkó voru suðuramerískar telenóvellur gríðarlega vinsælar og ég gat gleymt mér í þeim. Ég held að mín frásagnaraðferð beri þess merki og fyrir vikið er ég vonandi að bera eitthvað nýtt og öðruvísi á borð fyrir lesendur.“

Í hefðbundnu árferði væri Lilja búin að vera á þönum um heiminn að kynna bækurnar sínar. Þær koma alltaf út í sífellt fleiri löndum og segist hún þakklát fyrir þessar alþjóðlegu vinsældir. „Á síðasta ári fór ég í fjórtán kynningarferðir til útlanda sem er þó hvorki umhverfisvænt né höfundarvænt. Ég fann þegar kórónuveiran skall á að mér fannst gott að geta kjarnað mig, verið heima og andað. Auðvitað á maður ekki að kvarta yfir fylgifiskum þeirra forréttinda að vera rithöfundur í fullu starfi. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að skrifa góða bók heldur þarf góð saga að koma út á réttum tíma. Ég hef samt lært af ástandinu og sé fyrir mér að ég komi til með að velja og hafna meira í framtíðinni þegar kemur að kynningarferðum.“ Á árinu hefur hún því styrkt fjölskyldutengslin og notið þess að fylgja Möggu Pálu eftir í langömmuhlutverkinu.

„Það eru bráðum þrjátíu ár síðan við fórum að vera saman. Hún átti þá unglingsdóttur sem núna á alls fimm börn sem eru algjörir gullmolar. Það hefur verið mikil gæfa að hafa börn í lífi okkar og fá að fylgjast með þeim. Elsta dótturdóttir Möggu Pálu er síðan búin að eignast mann og saman eiga þau þriggja mánaða krútt. Þessi börn öll hafa gefið okkur mikið, ég eignaðist aldrei börn og það var eiginlega ekki í boði á þeim tíma sem við vorum ungar og hefðum treyst okkur í barneignir.“ Lilja segir nánast ótrúlegt að þær Magga Pála séu búnar að vera saman svona lengi. „Þegar ég var ung var það alþekkt staðreynd að gay fólk myndi ekki endast neitt í samböndum og við bjuggumst því ekki við þessu.“

Fimmtán ára aldursmunur

Hún var nítján ára þegar þær byrjuðu saman en Magga Pála 34 ára. Lilja hafði þó haft augastað á henni mun lengur. „Það er eiginlega smá vandræðalegt að segja frá því hvernig við kynntumst. Ég sá hana nefnilega fyrst í vinnunni hjá mömmu. Þær unnu í sömu byggingu og voru saman í kaffitímum. Ég var að heimsækja mömmu þegar ég sá Möggu Pálu fyrst. Ég var kornung en hún fullorðin kona enda fimmtán árum eldri en ég. Mér fannst hún strax rosalega spennandi, sérstaklega eftir að mamma sagði mér að hún væri lesbía. Ég fylgdist með henni úr fjarlægð og það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem við hittumst á skemmtistað og fórum í framhaldinu að vera saman.“

Vissirðu á þeim tíma sem þú sást hana fyrst að þú værir lesbía?

„Ég vissi að ég var eitthvað öðruvísi. Það tók mig smá tíma að átta mig á þessu. Ég kom samt frekar ung úr felum, ef svo má að orði komast. Þegar við kynntumst fannst henni ég allt of ung fyrir sig og það gekk svolítið erfiðlega fyrir mig að sannfæra hana um að ég væri sú eina rétta. En það hafðist á endanum,“ segir Lilja brosandi.

Hún segir foreldra sína hafa tekið því merkilega vel að hún væri lesbía og byrjuð með sér eldri konu. „Ég held að þau hafi fyrst og fremst haft áhyggjur, og ég skil það eftir á að hyggja. Samfélagsumræðan vann á móti okkur, sem og þetta algjöra réttindaleysi. Ég held að flestir foreldrar á þessum tíma hafi bara haft áhyggjur af því að barnið þeirra gæti ekki orðið hamingjusamt og að lífið yrði ofboðslega erfitt. Auðvitað var það kannski erfiðara en hjá mörgum en líf allra er erfitt á einhvern hátt. Síðan kynntust þau Möggu Pálu, sáu hvað hún er frábær og urðu glöð fyrir mína hönd að eiga hamingjuríkt einkalíf.“

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur. Mynd/Ernir

Óvænt þakklæti

Í þríleiknum Gildran, Netið og Búrið eru aðalpersónurnar lesbíur en Lilja segir það ekki hafa verið sérstaklega planað. „Ég vildi bara skrifa skemmtilega bók sem mér myndi finnast gaman að lesa. Fyrsta bókin varð svakalega vinsæl, ekki bara hjá gay fólki heldur öllum hópum fólks. Þegar bókmenntafræðingar úr háskólanum fóru að hafa samband við mig áttaði ég mig á því hversu fáar sögur fjalla um veruleika hinsegin fólks. Það kom mér í raun á óvart þegar fólk fór að færa mér þakkir, gay fólk sem var þakklátt fyrir að fá þarna sögupersónur sem það tengdi við og líka gagnkynhneigt fólk sem var þakklátt fyrir þessa innsýn í heim hinsegin fólks. Kynhneigð er hins vegar ekki aðalatriðið í bókunum. Þetta eru glæpasögur sem fjalla um kókaínsmygl og efnahagsbrot. Jónína Leósdóttir hefur líka skrifað á þennan hátt í unglingabókunum sínum, þar sem einhverjar persónur eru hinsegin en það er ekki viðfangsefni sögunnar. Heimurinn er alls konar og þar er alls konar fólk.“

Þá bendir Lilja á að hún hafi ekki áttað sig fyllilega á því fyrr en hún var búin að skrifa Helkalda sól að þar var engin lykilpersóna hinsegin. „Enda var það ekkert markmið í sjálfu sér. Í nýju bókinni leikur hún þó stærra hlutverk,“ segir hún.

Lilja Sigurðardóttir rithöfundur. Mynd/Ernir

Eins og að borða fíl

Nýju bækurnar eru svokallaðir þrillerar líkt og þríleikurinn enda fann Lilja að þar var hún komin á sína réttu hillu. „Eftir að Gildran kom út hefur bara verið brjálað að gera hjá mér sem rithöfundi. Það er ekki sjálfgefið að geta verið rithöfundur í fullu starfi á Íslandi en það kemur að stórum hluta til út af erlendum samningum.“

Þá hefur Lilja einnig fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Árið 2018 hlaut Gildran til dæmis tilnefningu til Gullna rýtingsins, virtra verðlauna samtaka breskra glæpasagnahöfunda, og fyrir sögurnar Búrið og Svik hlaut Lilja íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann og tilnefningu til norræna Glerlykilsins tvö ár í röð. Og hún hvetur áhugasama skúffuhöfunda einfaldlega til að láta vaða.

„Að skrifa fyrstu bókina er eins og að borða fíl. Þú tekur bara einn bita í einu. Fyrstu bókina mína skrifaði ég í hádegishléinu í vinnunni og það tók mig átta mánuði. Ég fékk mér samloku og skrifaði, en eftir þessa átta mánuði var komin bók. Þá varð ekki aftur snúið.“

 

GLÆPASÖGUR EFTIR LILJU

Spor 2009
Fyrirgefning 2010
Gildran 2015
Netið 2016
Búrið 2017
Svik 2018
Helköld sól 2019
Blóðrauður sjór 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“