Stine, sem var menntaskólanemi, var dregin niður í kjallara við heimili sitt í Teglgårdsstræde í Kaupmannahöfn. Þar var hún bundin á höndum með rafmagnssnúru sem var einnig sett utan um háls hennar. Hún kafnaði þegar morðinginn tróð tveimur þvottapokum ofan í háls hennar.
Hún var einnig skorin í andlitið og vaxi var hellt yfir hana. Eftir að hún lést var undarlegt merki rist á hægri handlegg hennar.
Í þáttaröðinni „Hvem dræpte Stine Geisler?“ (Hver myrti Stine Geisler?) er farið ofan í kjölinn á málinu og reynt að komast að hver myrti hana. Í þáttunum er rætt við nokkra menn sem voru eitt sinn grunaðir í málinu en voru hreinsaðir af öllum grun. En rannsókn þáttagerðarmannanna leiddi þá á slóð manns sem grunur hefur aldrei áður fallið á. Sá gengur undir heitinu „hjólaskautamaðurinn“ og hefur að sögn margoft sagt við fyrrum unnustu sína, vini og kunningja að hann eigi eiginlega að vera í fangelsi fyrir að hafa myrt Stine. Það að hann hafi ekki verið dæmdur fyrir morðið er að sögn vegna þess að stjúpfaðir hans veitti honum fjarvistarsönnun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Discovery Networks.
Þegar þáttagerðarmaðurinn Jeppe Facius ræddi við manninn neitaði hann sök og sagði að lögreglan gæti bara komið og rætt við sig. Þáttagerðarmennirnir telja að lögreglan eigi að skoða málið út frá því sem þeir komust að og fá lífsýni úr „hjólaskautamanninum“ til að bera saman við lífsýni sem fundust á vettvangi.
Lögreglan hefur sagt að morðinginn sé „sadisti og öfuguggi sem njóti þess að misþyrma og niðurlægja konur“.