Fréttablaðið skýrir frá þessu. Dómurinn er sambærilegur dómi sem var kveðinn upp í svipuðu máli í byrjun mánaðarins og vakti mikla athygli.
Dómur gærdagsins gengur enn lengra en hinn því auk þess að komast að þeirri niðurstöðu að ÍL-sjóður hafi gerst brotlegur við húsnæðislög komst dómarinn að þeirri niðurstöðu að sjóðurinn hafi einnig gerst brotlegur við neytendalög, þar á meðal með lélegri upplýsingagjöf. „Þessi dómur í raun og veru kemur með þau viðbótarsjónarmið að það hafi verið brotið gegn lögum um neytendamál með því að lánaskilmálar tiltóku ekki hvernig uppgreiðslugjald skyldi reiknað út,” hefur Fréttablaðið eftir Jónasi Fr. Jónssyni, hæstaréttarlögmanni, sem sótti málið fyrir hönd hjónanna.
Í dómi sínum fer héraðsdómur hörðum orðum um starfsemi ÍL-sjóðs vegna þess að um opinberan aðila sé að ræða og það verði að gera ríkar kröfur til hans. nokkur losarabragur hafi verið á frágangi lánsskjala og tilviljun virðist hafa ráðið því hvað stóð í stöðluðum skuldabréfaskilmálum skjalanna. Einnig hafi sjóðurinn ekki tryggt sér neina sönnun þess að viðskiptavinir hafi fengið kynningarefni eða útreikning uppgreiðslugjalds.