Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Norðurlands frá 12. desember þess efnis að maður sem sérsveitin sat um á Akureyri þann 11. desember þurfi að afplána 497 daga eftirstöðvar dóms sem hann hefði fengið reynslulausn frá. Var honum veitt reynslulausn þann 9. maí 2020 eftir að hafa afplánað hluta refsingar.
Í úrskurðinum er gerð nánari grein fyrir afskiptum sérsveitar ríkislögreglustjóra af manninum sem greint var frá í fréttum í síðustu viku.
Þegar lögreglumenn komu að fjölbýlishúsi á Akureyri á dögunum ræddi við þá kona sem sagði þeim að maðurinn sem um ræðir hefði kýlt hana tvisvar í andlitið. Þá hafi hann verið með tvo hnífa sem hann ógnaði henni með. Þegar lögreglumenn voru að ræða við konuna á vettvangi kom maðurinn fram, öskrandi og blótandi og sagðist ætla að skera lögreglumennina á háls. Hann sagðist vera vopnaður og skoraði á lögreglumennina að koma inn í íbúðina. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til ásamt samningamönnum til að ræða við manninn og fá hann til að gefa sig fram við lögreglu í góðu.
Í samtölum við samningamenn ítrekaði maðurinn hótanir sínar um að drepa lögreglumennina. Sagðist hann áður hafa skotið á manneskju og haft gaman af því. Sagðist hann vera með afsagaða haglabyssu sem hann hótaði að nota gegn lögreglu. Jafnframt hótaði hann að kveikja í húsinu.
Þegar fullreynt þótti um samninga við manninn réðust sérveitarmenn inn í íbúðina. Maðurinn mætti þeim með stóran búrhníf á lofti. Þurfti að beita höggboltakylfu og piparúða til að yfirbuga manninn. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús en á leiðinni hélt hann uppteknum hætti og hótaði lögreglumönnum.
Úrskurður héraðsdóms sem Landsréttur staðfestir er að maðurinn hafi rofið skilmála reynslulausnarinnar og þarf hann því að sitja eftirstöðvar gamla refsidómsins af sér, samtals 497 daga.