Skiptum er lokið í þrotabúi hinnar grónu og landsþekktu varahlutaverslunarkeðju, Bílanausts. Ljóst er af þeim kröfum sem gerðar voru í búið og því sem innheimtist ekki að reksturinn hefur farið illilega úr skorðum. Fyrirtækið Motomax keypti upp þrotabú Bílanausts í febrúar í fyrra og hélt rekstrinum áfram.
Skiptastjóri var Sigurður G Guðjónsson lögmaður. Að hans sögn voru aðalkröfuhafar hvað varðar veð- og haldskröfur Arion banki og N1. Arion átti veð í húsnæði fyrirtækisins og N1 í lager. Motomax keypti þessar kröfur. Svokallaðar veð- og haldskröfur eru upp á hálfan milljarð og greiddust rúmlega 260 milljónir upp í þær kröfur.
Forgangskröfur voru rúmlega 153 milljónir og lýstar almennar kröfur hátt í hálfur milljarður, eða rúmlega 460 milljónir. Ekkert fékkst upp í þessar kröfur og ljóst að skellurinn var stór fyrir marga, til dæmis lentu launakröfur á Ábyrgðarsjóði launa.
Bílanaust skellti skyndilega í lás í byrjun árs 2019 og starfsmenn voru sendir heim. Á dyr verslunar fyrirtækisins við Dverghöfða var sett til tilkynning þess efnis að lokað væri vegna breytinga (Sjá Vísir.is) en verslunin var aldrei opnuð aftur.