Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. „Aukning skulda leggst því þyngra á íslenska ríkið sem þarf meiri skattheimtu, niðurskurð eða hagvöxt til að grynnka á skuldum í framtíðinni,“ er haft eftir Ingólfi Bender, aðalhagfræðingi Samtaka iðnaðarins sem sagði einnig að það þurfi að fara mjög varlega í þessum málum.
Blaðið segir að ef miðað sé við að skuldir ríkissjóðs verði um 65% af landsframleiðslu 2025 verði á þeim vöxtum sem ríkið fjármagnar sig á til tíu ára eins og staðan er í dag, en þeir eru um 3,3%, þá verði vaxtabyrði ríkissjóð 2,14% af landsframleiðslu. Til samanburðar er nefnt að vaxtabyrði Grikklands verði 0,98% af landsframleiðslu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að skuldahlutfall hins opinbera í Grikklandi verði um 166% 2025.
Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi eru tíu ára vextir neikvæðir og því verður vaxtabyrðin neikvæð. Markaðurinn hefur eftir Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, hagfræðingi hjá Samtökum atvinnulífsins, að líklega þurfi að hækka skatta til að standa undir óbreyttum útgjöldum ríkissjóðs, það sé ekki hægt að treysta á að hagvöxtur grynnki á skuldunum. „Það er óábyrgt að treysta á slíkan vöxt og hafa þarf hugfast að sögulega lágt vaxtastig endurspeglar einmitt dræmar hagvaxtarhorfur,“ er haft eftir henni.