Stórhættulegt ástand skapaðist á þjóðveginum frá Borgarfirði og inn í Skagafjörð í gærkvöld vegna mikilla tjörublæðinga á þessum langa vegarkafla. Í tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra í gærkvöld er ástandinu lýst svo:
„Lögreglan á Norðurlandi vestra við vekja athygli á miklum tjörublæðingum á vegarkaflanum úr Borgarfirði og norður um land. Við þessar aðstæður þá sest tjaran í munstur hjólbarða bifreiða sem veldur því að aksturshæfni þeirra skerðist, sem og getur tjaran slest á bifreiðar sem að á móti koma. Tilkynnt hefur verið um tjón á bifreiðum í dag vegna þessa sem og eitt umferðaróhapp sem að rekja má til þessarra óvenjulegu aðstæðna. Ökumenn eru því beðnir um að aka varlega, fylgjast með hjólbörðum bifreiða sinna og jafnframt að sýna annarri umferð tillitssemi.“
Meðfylgjandi myndir eru frá Ragnhildi Þorgeirsdóttur sem ók þessa leið í gærkvöld. Hún lenti í miklum hrakningum en brást við af hófsemi og varkárni. Bíll hennar slapp þó ekki við skemmdir. Ragnhildur ræddi við DV:
„Við erum ekki farin að athuga með hjólbarðana en það eru skemmdir á bílnum, undir hjólaskálum, við erum bara ekki búin að skoða þetta almennilega því við vorum í myrkri og erum bara að vinna í þessu núna.“
Ragnhildur bendir á að þrátt fyrir að hún hafi farið mjög varlega og ekið á aðeins 40-50 km metra hraða hafa hún ekki sloppið:
„Við fórum eftir tilmælum Vegagerðarinnar og vegurinn var alls ekki lýstur ófær eða neitt slíkt. En það hlóðst gríðarlegt magn af tjöru utan á hjólbarðana og það var mikill hávaði og læti þegar klumparnir losnuðu og þeyttust utan í hjólaskálarnar. Við stoppuðum í Varmahlíð og brösuðum þar við að tjöruþvo. Síðan lengra inn í Skagafjörðinn minnkaði þetta,“ segir Ragnhildur en að hennar sögn byrjuðu ósköpin um leið og ekið var úr Borgarnesi og ástandið var hvað verst í Miðfirði og í kringum Blönduós, lá við að vegurinn þar væri ófær vegna tjörublæðinga.
„Við ókum framhjá mörgum bílum í vegkantinum þar sem bílstjórarnir voru að skoða ummerki, vissu ekki hvað var í gangi,“ segir Ragnhildur sem er að láta þrífa bílinn sinn núna og meta skemmdir.
Margir bílstjórar sem lentu í stórfelldum vandræðum vegna ástandsins í gærkvöld hafa tjáð sig á Facebook. Einn segir: „Mættum flutningabíl hjá Baulu og fengum tjöruklump fljúgandi á móti okkur sem lenti með miklum látum á framenda bílsins okkar. Sem betur fer endaði þetta bara á númeraplötunni okkar en ekki á framrúðunni. En miðað við kraftinn þá hefði það ekki endað vel.“
Garðar Héðinsson skrifar harðorðan pistil um málið til lögreglunnar:
„Þetta eru afleiðingarnar af margra ára glæpsamlegu athæfi Vegagerðarinnar og ég skora á lögregluna að stíga nú upp og kæra Vegagerðina fyrir að setja vegfarendur í stórhættu, og eða fyrir stórfelld eignaspjöll á sameiginlegum innviðum okkar sem þeim er treyst fyrir. Þessari sorglegu meðvirkni verður að fara að linna. Virðing og þökk.“
Ónefndur bílstjóri skrifar þennan pistil:
„Er þetta brandari? Það er gjörbreytt ástand vega eftir að Vegagerðin fór úr biki með White-spíra og yfir í allskonar tilraunastarfsemi. Þessar blæðingar á veturna svo og tjörublæðingar á sumrin sem leystar eru með möl og sandburði sem er stórhættulegt líka. Og hvað? Þeir eru ekki ábyrgir fyrir framkvæmdunum, og ekki ábyrgir fyrir afleiðingunum ef þeir tilkynna að það sé lífshættulegt ástand á vegunum. Eins og þessi mynd ber með sér þá er þetta dekk kolólöglegt. Það er ekkert mynstur í dekkinu af því að drullan hefur fyllt það og dekkið sem er einn mesti öryggisbúnaður bílsins er óvirkt sem slíkt. Þessi ábyrgð er því kominn yfir á bílstjórann og ef lögreglan stoppar einhvern með hjólbarða í þessu ástandi geri ég ráð fyrir að þeim beri að stöðva för bifreiðarinnar og sekta ökumanninn.
Er þetta sparnaður í raun og hvaða umhverfismál er það að ausa White spíra og öðrum hreinsiefnum frekar í hreinsanir á ökutækjum, heldur en við lagningu klæðningarinnar?
Telur löggjafinn þetta vera eðlilegt spyr ég?
Telur almenningur þetta vera ásættanlegt?
Er ekki komið að því að eitthvað meira en 23-25 af c.a. 85 milljörðum sem skattlagðir eru af ökutækjum fari kannski í að tryggja öryggi okkar?“