„Elskuleg móðir mín sem ég elskaði svo heitt féll frá 47 ára gömul eftir langa baráttu við áfengis og fíknisjúkdóm,“ skrifar landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Guðlaugur Victor Pálsson í hjartnæmri færslu á Instagram síðu sinni í dag.
Bréf Guðlaugs til móður sinnar er einlægt og fallegt en Ásta Marta Róbertsdóttir lést 27 nóvember. Hún hafði glímt við fíknivanda og ræddi Guðlaugur það við Sölva Tryggvason í sumar. „Mamma er mamma, mamma er Ásta, en fíkillinn er fíkillinn, þetta er ekki mamma mín,“ sagði Guðlaugur og hélt áfram. „Ég sé ekki eftir neinu, af því að ef ég lít til baka yfir öll þessi ár, þá er ég sá sem ég er í dag út af mínu lífi. Ég get ekki séð eftir hlutum af því að ég er ánægður í eigin skinni í dag.”
Guðlaugur var einn besti knattspyrnumaður Íslands á síðasta ári en hann leikur með Darmstad í Þýskalandi.
Bréf Guðlaugs til móður sinnar er í heild hér að neðan:
Til elsku mömmu
Ég lærði aldrei hvaða merkingu „Ég sakna þín“ hefur fyrr en núna, ég var ekki tilbúinn til þess að kveðja. Vonin var sterk um að þú gætir náð bata og komið til baka. Vonin er farin og það er sárt, ég veit hversu mikið þú reyndir og barðist. Þú þráðir ekkert meira en að koma til baka og vera til staðar fyrir börnin þín og barnabörn. Axel (Sonur Guðlaugs) var heppinn að hafa þig í sínu lífi. Þú elskaðir hann mikið og hann elskaði þig. Ég lofa þér því að hann mun muna eftir þér alla tíð, þú gerðir þitt besta. Ég veit það.
Lífið var ekki alltaf auðvelt eða sanngjarnt gagnvart þér, ég vil að þú vitir að ég er svo stoltur af þér.
Þú varst góð móðir og þú varst minn besti vinur, síðustu ár hafa reynst okkur erfið. Ég hefði ekki kosið að eiga neina aðra sem móður þrátt fyrir erfiða tíma. Góðu minningarnar lifa að eilífu, ég er sá sem ég er vegna þín. Ég mun leggja mig allan fram við að vera besta útgáfan af sjálfum mér, eins og þú vildir. Ég mun halda áfram að gera þig stolta og berjast fyrir öllu sem þú trúðir á og stóðst fyrir.
Þitt stóra og hlýja hjarta verður sárt saknað, þú varst góð persóna sem vildir alltaf hjálpa þeim sem þurftu. Þú elskaðir og hugsaðir til allra sem urðu á vegi þínum.
Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki alltaf skilið það sem þú gekkst í gegnum en ég geri það núna. Ég fyrirgef þér allt og ég vona að þú fyrirgefir mér.
Ég vil trúa því að þú hvílist nú á betri stað. Það verður enginn kveðjustund fyrir okkur, þú verður alltaf í hjarta mínu hvar svo sem þú ert. Ég hef alltaf og mun alltaf elska þig
Þinn sonur
Gulli Victor
View this post on Instagram