Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ef breytingin verður samþykkt verði mörkin 4,21 milljón hjá einstaklingum og 8,42 milljónir hjá sambúðarfólki.
Ef þessi breyting verður að veruleika mun það skila sambúðarfólki með tvö börn allt að 18.600 krónum meira í barnabætur en einstætt foreldri með tvö börn mun fá allt að 9.300 krónum meira. Eftir því sem börnunum fjölgar er hækkunin meiri.
Ekki er lagt til að breytingar verði gerðar á efra skerðingarhlutfallinu sem er 5,5 milljónir hjá einstæðingum og 11 milljónir hjá sambúðarfólki. Ef tekjur fara yfir þessi mörk er skerðingin mjög skörp. Þessi mörk fylgja ekki launaþróun og því fær vísitölufjölskyldan, hjón með meðallaun og tvö börn, engar barnabætur.
Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkisins vegna barnabóta verði 14,2 milljarðar á næsta ári. 865 milljónir af þeirri upphæð eru vegna fyrrnefndra breytinga.