Í kvöld var greint frá því að Norski bankinn DNB (Den Norske Bank) hefði sagt upp öllum viðskiptum við félög Samherja í desember í fyrra. Það hafi verið vegna ófullnægjandi svara félagsins við spurningum er vörðuðu millifærslur sem voru rannsakaðar sem mútugreiðslur. Auk þess hafi Samherji átt í erfiðleikum með að svara fyrir fjármagnsflutninga sem eiga að hafa farið í skattaskjól. Kveikur og Stundin stóðu fyrir umfjölluninni og birtu skjöl máli sínu til stuðnings.
Bankareikningar þessara Samherjafélaga eru sagðir hafa verið notaðir til að greiða mútugreiðslur upp á fleiri hundruð milljóna til félags í skattaskjóli.
Kveikur og Stundin byggja umfjöllun sína á gögnum frá sjálfum DNB-bankanum, sem eru notuð í rannsóknum namibískra yfirvalda á Samherjamálinu.
Í lok nóvember á seinasta ári, stuttu eftir umfjöllun Stundarinnar, Kveiks og Al Jazeera á Samherjamálinu svokallaða, hafi bankinn sent Samherja pósta þar sem að óskað var eftir því að svarað yrði fyrir það sem fram kom í umfjölluninni. Fram kemur að um hafi verið að ræða langan spurningalista, þar sem að fyrsta spurningin var: „Hvert er mat félagsins á ofangreindum ásökunum? Vinsamlegast rökstyðjið.“
Þá er Samherji sagður hafa svarað, en bankanum þótt svörin ófullnægjandi. Það hafi leitt til þess að reikningum Samherja hafi verið lokað í byrjun þessa árs.
Einnig kemur fram að Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja hafi sagt í febrúar að það hafi verið Samherji sem hætti samstarfinu með DNB. Þó hafi hann seinna jánkað í viðtali að DNB hafi átt frumkvæðið að rannsókninni.