fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Tímavélin – Klámbúllur og hjálpartæki ástalífsins

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 13. desember 2020 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rúmlega 30 árum gafst Íslendingum í fyrsta sinn kostur á að kaupa sér hjálpartæki ástalífsins hér á landi. Starfsemin, póst- þjónusta með meiru, vakti mikla athygli, ekki alltaf jákvæða.

„Menn þurfa ekki að vera margsigldir til þess að vita að í flestum erlendum stórborgum er að finna svonefndar „sexbúðir“. Eins og forvitnir ferðalangar kannast við, er í þessum verslunum seldur ýmis sá varningur sem á einhvern hátt tengist kynlífi – í víðustu merkingu þess orðs. Þarna má sjá græskulaus grínleikföng, klámblöð, myndbönd, gervilimi, uppblásnar plastkonur, leðurfatnað, gegnsæ undirföt og svipur, að maður tali ekki um allan þann varning sem venjulegir einfeldningar kunna engin skil á og geta ekki ímyndað sér til hvers séu brúklegir.

Enn sem komið er hefur enginn opnað slíka búð hér á landi, en í Reykjavík er hins vegar starfrækt póstverslun, sem selur ýmiss konar hjálpartæki fyrir þá sem kynda vilja lítillega undir kynlífinu.“ Þetta var skrifað í Helgarpóstinum í janúar 1986. Tilefni skrifanna var tilkoma póstverslunarinnar Pan, sem var fyrsta verslunin á Íslandi til að selja hjálpartæki ástalífsins.

Kynsveltur markaður

Pan póstverslun hafði starfsemi í lok árs 1986. Að baki versluninni stóðu félagarnir Guðmundur Rúnar Ásmundsson og Sæmundur Haukur Haraldsson. Þeir höfðu tekið eftir því að í Sóhó-hverfi í London mátti finna fjölda sérverslana með kynlífsvörur, en enga slíka mátti finna á Íslandi. Mátu það þeir svo að hér á landi væri eftirspurn sem þeir gætu svarað, eða eins og þeir orðuðu sjálfir „markaður sem hafði verið í svelti frá landnámi“. Vakti verslunin hratt mikla athygli, bæði viðskiptavina sem og fjölmiðla. Athygli fjölmiðla beindist þó fremur að rekstrinum heldur en vöruframboðinu þar sem fyrirtækið lenti í þó nokkrum deilumálum þetta tæpa ár sem það var starfrækt

Rekin vegna aukavinnu

Fljótlega eftir áramótin 1986 ákváðu Pan-félagarnir að færa út kvíarnar og hófu að skipuleggja sýningarkvöld, þar sem fatnaður sem þeir höfðu til sölu var sýndur á nokkurs konar tískusýningu þar sem finna mátti klæðalitlar fyrirsætur, svo klæðalitlar að sýningin þótti helst minna á nektardans að erlendri fyrirmynd. Hins vegar voru fyrirsæturnar af báðum kynjum. Mátti panta slíka sýningu í einkasamkvæmi en einnig fóru þær fram á skemmtistöðum. Ein stúlk sem var fyrirsæta á slíkum sýningum var rekin úr dagvinnu sinni hjá Verzlunarskóla Íslands sökum þess að skólastjóra þótti póstverslunin Pan og sýningarhópurinn ósiðsamlegur og til þess fallinn að fæla burt nemendur og foreldra þeirra.

„Ég er ekki að skilgreina þessa vöru í anda klámlaga. Þetta er varningur, sem við sjáum seldan í vissum verslunum erlendis. Þær verslanir ganga á íslensku undir heitinu klámbúllur. Sá varningur, sem seldur er í klámbúllum, hlýtur að vera klámvara,“ sagði skólastjórinn, Þorvarður Elíasson, í samtali við Helgarpóstinn í mars 1986.

Blygðunarsemi almennings

Starfsemin vakti einnig athygli lögreglunnar. En í Morgunblaðinu í mars 1986 kom fram að lögreglustjórinn í Reykjavík hefði til skoðunar hvort starfsemi póstverslunarinnar Pan bryti gegn lögum um bann við dreifingu kláms eða hvort það bryti gegn blygðunarkennd almennings. „Það er alltaf matsatriði og háð tíðaranda hvað telst klám og hvað ekki og því munum við ekki hafast að í þessu máli nema okkur berist kæra,“ sagði Böðvar Bragason, þáverandi lögreglustjóri, í samtali við Morgunblaðið.

Lögbann á nafnið

Þetta var ekki það eina sem varð umdeilt við verslunina.

„Eins og fram hefur komið, hefur fyrirtækið Pan h.f. á Akureyri lagt fram lögbannsbeiðni vegna nafnsins á póstversluninni Pan, sem verslar með hjálpartæki ástalífsins. Segja kunnugir að lögbannsbeiðni sé til komin sökum margendurtekinna kvartana sárþjakaðra bænda sem versla við fyrrnefnt Panfyrirtæki á Akureyri.

Þegar bændurnir mæta á næsta pósthús til þess að leysa út „kítti“ frá Akureyri, sem sent er í póstkröfu, verða oft úr því hin vandræðalegustu augnablik. „Kíttið“ er nefnilega selt í stórum og myndarlegum túbum, en þegar póstafgreiðslumenn og aðrir nærstaddir sjá að um er að ræða sendingu frá Pan, myndast gjarnan hláturviprur við munnvikin.

Bændum á Norðurlandi finnst það hins vegar lítt fyndið að þurfa að leysa út þessa innpökkuðu sívalninga í votta viðurvist.“ Þetta var skrifað í Helgarpóstinn í apríl 1986. Eftir að lögbannið var sett á þurfti verslunin að skipta um nafn.

Bankastjórar hjálpartækjabanka

Á sama tíma hafði stærra mál komið upp í tengslum við reksturinn. Pan-sýningarhópurinn hafði verið orðaður við vændi. Úr varð nokkurt fjölmiðlafár. Enda virtust fjölmiðlar elska að fjalla um þennan umdeilda verslunarrekstur.

„Tveir af kunnustu oddvitar ástarinnar í hinu íslenska samfélagi eru komnir í hár saman. Gagnkvæm vinátta virðist hafa breyst í hatur og þegar ég segi að það sé út af tittlingaskít, þá fer ekki á milli mála hverjir mennirnir eru. Að sjálfsögðu bankastjórar hjálpartækjabanka ástarinnar, þeir Guðmundur Ásmundsson, eigandi fyrirtækisins „House of Pan“, sem selur hjálpartæki ástalífsins og Sæmundur Haukur Haraldsson sem hefur snúið sér alfarið að rekstri sýningarhópsins „Pam“.

Eftir því sem næst verður komist gegnir sá flokkur margþættu hlutverki í ástarlífi borgarinnar, meðal annars með því að lyfta þeim mönnum upp, sem of niðurdregnir eru orðnir af langvarandi búsorgum og veita þeim viðunandi úrlausn.

Það er sárt til þess að vita að þessir tveir gömlu, góðu vinir og samstarfsmenn um ástamál skuli nú vera orðnir hatursmenn,“ sagði Flosi Ólafsson í vikulegum pistli sínum í júní árið 1986. Guðmundur og Sæmundur Haukur stigu fram í fjölmiðlum sitt á hvað, Guðmundur sakaði Sæmund um vændisstarfsemi og Sæmundur sagði Guðmund veikan á geði.

Bjargvættir og draumaprinsar

Orðrómurinn um vændi meðal Pam-sýningarhópsins virtist ekki úr lausu lofti gripinn. Rannsóknarblaðamenn prufuðu að hafa samband við Sæmund Hauk og mátti af tilsvörum hans dæma að ýmislegt stæði þar til boða sem ekki væri alveg eftir lögum. Hins vegar hélt Guðmundur sig áfram við hjálpartækjasölu, enda virtist þar nóg að gera.

Notast var við góð íslensk orð yfir þann búnað sem til sölu var. Titrarar voru kallaðir „juðarar“ og oft nefndir draumaprinsar. Vörur sem voru ætlaðar körlum voru kallaðir „bjargvættir“. Bjargvættirnir voru fjölmargir og státuðu af nöfnum á borð við „Raf-Svalinn, Hólkurinn, Kreistari og Útlimalausa ambáttin.“

Fleiri höfðu þó þarna gert sér grein fyrir gullkúnni sem var fólgin í sölu hjálpartækja ástalífsins. Annað fyrirtæki, Rómeó og Júlía, fór einnig að bjóða upp á póstverslun. Fór svo að Rómeó og Júlía keypti Panpóstverslunina, fyrir 400 þúsund krónur, og opnaði í kjölfarið fyrstu eiginlegu verslunina á Íslandi sem bauð upp á hjálpartæki ástalífsins. n

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu