fbpx
Miðvikudagur 01.janúar 2025
Fókus

Guðrún Kristín segist fá skilaboð frá látnu fólki – „Ég er ekki með einhvern spuna“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 10. desember 2020 16:00

Mynd af Guðrúnu: SRFÍ.is Mynd af Tarot spilum: Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamaður var að fá sér pylsu um daginn og ákvað að kveikja á útvarpinu sér til dægrastyttingar á meðan pylsan var étin. Eftir að hafa flakkað um útvarpsstöðvar datt hann inn á þátt sem var í gangi á Útvarpi Sögu. „Hringdu í miðilinn“ heitir þátturinn og er í umsjón miðilsins Guðrúnar Kristínar Ívarsdóttur.

Eftir að hafa hlustað á þáttinn ákvað undirritaður að slá á þráðinn hjá Guðrúnu og spyrja hana út í ýmsa hluti varðandi miðla. Í byrjun samtalsins tók undirritaður fram að hann er mikill efasemdarmaður þegar kemur að yfirnáttúrulegum hlutum eins og skyggnigáfu og miðlum. Guðrún segir það vera algengt og að jafnvel hún falli stundum í gryfju efasemdarinnar.

Sér dáið fólk

Þegar Guðrún var spurð hvort hún gæti spáð fyrir blaðamanni í gegnum símann, líkt og hún gerir í útvarpsþættinum, svaraði hún neitandi. „Ekki núna, ég þarf undirbúning,“ sagði hún.

„Ég í raun og veru þarf bara að fara í hugleiðslu, áður en ég fer í útvarp þá fer ég bara í hugleiðslu og svo tengi ég mig þegar ég sest í stólinn. Í daglegu lífi þá er ég ekki í tengingu, þá væri ég bara hálf geðveik. Maður vill ekki vera að heyra þetta í daglegu lífi, hvernig fólki líður og annað slíkt.“

Guðrún vill meina að hún fái upplýsingarnar sínar um fólk frá svokölluðum leiðbeinendum sínum. Þessir leiðbeinendur sem um ræðir eru í rauninni fólk sem er fallið frá, dáið fólk. „Ég er með mína leiðbeinendur og ég fæ í raun og veru bara skilaboð frá þeim,“ segir hún. „Það er náttúrulega bara fólk sem er farið, dáið fólk.“

„Nei það er ekki þannig“

Leiðin sem Guðrún notar í útvarpinu til að spá fyrir fólki er á ensku kölluð cold reading, eða köld lesning í beinni íslenskri þýðingu. Köld lesning virkar þannig að miðillinn kemur með spurningar sem hljóma eins og staðreyndir og í raun og veru sér viðfangsefnið um að fylla upp í eyðurnar. Þannig ná miðlar að spá fyrir fólki en í raun og veru má segja að um sé að ræða aðeins flóknari útgáfu af Gettu hver ég er leiknum vinsæla.

Guðrún segir þó að það sé ekki raunin. „Nei, það er ekki þannig. Það getur oft verið þannig að það koma skilaboð en þá er það til dæmis næsti innhringjandi sem á þetta. Þetta er öðruvísi þegar fólk er í einkatímum, þá er manneskjan fyrir framan þig. Þá horfi ég meira á áruna og sé hvað er í kringum fólk og annað slíkt. Ég túlka það sem ég skynja, bæði það sem er í spilunum og þau skilaboð sem ég fæ frá leiðbeinendunum. Ég er ekki með einhvern spuna í útsendingu, það er ekki þannig.“

„Maður getur séð bæði gott og slæmt“

Guðrún segir að hún hafi farið í margra ára þjálfun til að verða miðill. „Ég fór í þjálfun hjá Mannræktarskólanum hjá Friðbjörgu Óskarsdóttur,“ segir Guðrún. „Maður getur séð bæði gott og slæmt, þannig er heimurinn. Það er verið að reyna að túlka þar á milli. Það er svona alls konar sem við lærðum. Við lærðum að fara í trans, við lærðum að hlusta á skilaboð. Manneskja sem vinnur sem miðill þarf að vera búin að vinna algjörlega í sjálfri sér og vera með algjörlega hreint hjarta. Það er eitt af því sem við fórum í gegnum í þessum Mannræktarskóla. Við lærðum líka hlutskyggningu, ef þú kemur með einhvern hlut þá get ég fundið hver átti hlutinn, lýsingu á manneskju og annað slíkt. Þetta er allt saman þjálfun á innsæi og að hlusta á leiðbeinendurna sem við erum með.“

Spáði fyrir um fall WOW-air

Í samtalinu við DV kemur Guðrún með tvö dæmi um það þegar hún spáði rétt fyrir. „Til dæmis þá var manneskja í eitt skiptið sem var mjög slæm í hnénu, ég sá það alveg um leið. Það er eitthvað sem ég veit ekki og í raun og veru þá vil ég alltaf fá sannanir. Ég kem með eitthvað svona og þá er það rétt. Ef ég væri ekki að fá rétt skilaboð, ef ég væri bara einhver kelling úti í bæ sem væri bara að ljúga að fólki, þá væri ég ekki í þessu starfi,“ segir hún og kemur með hitt dæmið.

Hitt dæmið varðar fall flugfélagsins WOW-air en Guðrún segist hafa spáð því í beinni á Útvarpi Sögu. „Ég man ekki hvenær það var, það var rétt fyrir fall WOW-air. Ég spáði fyrir um það að það myndi verða gjaldþrota.

„Fullt af fólki sem gefur sig út fyrir að vera miðlar en eru það ekki“

Aðspurð hvort það sé mikið um fúskara í miðlastörfum segir Guðrún að það sé raunin. „Ég get allavega sagt þér það að það er fullt af fólki sem gefur sig út fyrir að vera miðlar en eru það ekki. Allar þessar símalínur, þessar símaspákonur og eitthvað svona, það er oft fólk sem er ekki búið að fara í þessa þjálfun,“ segir Guðrún.

„Ég er að vinna hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands, sem er elsta félag á landinu. Allir þeir miðlar sem starfa þar þurfa að fara í gegnum ákveðið próf,“ segir hún og bætir við að hún myndi ekki vinna sem miðill ef hún væri ekki viðurkennd sem slíkur.

Tímar hjá miðlum kosta upp í 15 þúsund

Eflaust velta margir því fyrir sér hvað tíminn hjá miðli kostar en Guðrún svaraði þeirri spurningu. Í svörum hennar kom fram að tíminn hjá miðli hjá Sálarrannsóknarfélaginu kosti 8.000 krónur en tíminn er um 40 mínútna langur. Tíminn hjá heilara kostar hins vegar 9.000 krónur en sá tími er um klukkutími að lengd. „Ég hef heyrt að hjá öðrum miðlum er verðið alveg upp í 14, 15 þúsund.“

Eins og áður segir vinnur Guðrún hjá Sálarrannsóknarfélaginu en áhugasamir geta bókað tíma hjá henni þar. Hér má finna svæði hennar á vefsíðu Sálarrannsóknarfélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þriggja hæða einbýlishús með einstökum bakgarði á 298 milljónir

Þriggja hæða einbýlishús með einstökum bakgarði á 298 milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Hefur blokkað yfir 850 manns á miðlinum

Vikan á Instagram – Hefur blokkað yfir 850 manns á miðlinum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý spáir fyrir Guðna og Elizu: „Það er allt í lagi að fara í sitthvora áttina og allir eru vinir“

Ellý spáir fyrir Guðna og Elizu: „Það er allt í lagi að fara í sitthvora áttina og allir eru vinir“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý svarar spurningunni sem brennur á fólki og segir að þetta verði næsti landsliðsþjálfari – „Hann er maðurinn“

Ellý svarar spurningunni sem brennur á fólki og segir að þetta verði næsti landsliðsþjálfari – „Hann er maðurinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ungur og upprennandi leikari lést í hörmulegu slysi

Ungur og upprennandi leikari lést í hörmulegu slysi