Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að einnig sé lagt til að 1,3 milljörðum verði varið til fjölgunar hjúkrunarrýma og að sóttvarnalæknir fái sömu upphæð til að kaupa bóluefni gegn COVID-19 á næsta ári.
Kúabændur eiga að fá 242,5 milljónir og sauðfjárbændur 727,5 milljónir vegna áhrifa heimsfaraldursins. Þetta er vegna fækkunar ferðamanna sem aftur hefur valdið minni eftirspurn eftir afurðum bænda en fækkunin jafngildir því að neytendum hafi fækkað um rúmlega 30.000.
Tæplega 200 milljónum verður varið til öryggis- og varnarmála vegna netöryggismála. Persónuvernd og Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fá 25 milljónir vegna samstarfsverkefnis um þjónustuver á Húsavík. Umboðsmaður Alþingis fær 17 milljónir vegna frumkvæðisathugana og launaðs leyfis umboðsmanns.
Sóknargjöld hækka um 100 krónur og verða 1.080 krónur. Framlög vegna endurhæfingarlífeyris hækka um 2,6 milljarða vegna fjölgunar endurhæfingarlífeyrisþega en þeim hefur fjölgað um 25%.
Ferðakostnaður ráðuneyta og stofnana lækkaði um 1,8 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við síðasta ár og er því lagt til að framlög vegna ferðalaga lækki um 2 milljarða á næsta ári. Einnig er lagt til að 5 milljarðar verði settir í almennan varasjóð til að mæta óvæntum útgjöldum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar á næsta ári.