Ýmsar kenningar voru settar fram um ástæður þessara dularfullu veikinda og heilsutjóns. Því var varpað fram að áður óþekkt rafsegulsviðsvopn hefði verið notað eða að ráðist hefði verið á starfsfólkið með hljóðum. En ekki fékkst skýr niðurstaða í málið.
Á síðasta ári komust bandarískir læknar að þeirri niðurstöðu að sumir starfsmennirnir hefðu hlotið varanlegt tjóna á heila vegna þessara óútskýrðu atburða. Margir glímdu við langvarandi veikindi og vandamál og sumir töldu að heilsufar þeirra hefði í heildina versnað mikið.
Nú hefur bandaríska vísindaakademían birt skýrslu þar sem kemur fram að líklegasta skýringin á veikindunum sé að örbylgjugeislum hafi markvisst verið beint að starfsmönnunum. BBC skýrir frá þessu. „Ábyrgð“ vegna málsins er ekki varpað beint á neinn í skýrslunni en í henni kemur fram að Rússar, nánir Bandamenn Kúbu, hafi fyrir hálfri öld gert tilraunir með markvissa beitingu örbylgjugeisla á eigin hermönnum.
Þegar bera fór á veikindunum sökuðu Bandaríkin stjórnvöld á Kúbu um að standa á bak við þau. CNN segir að ákveðið hafi verið að rífa nokkrar byggingar sendiráðsins til að finna ástæðu veikindanna en enginn útbúnaður fannst sem gat hafa valdið veikindunum. Stjórnvöld á Kúbu sögðust ekki hafa staðið á bak við árásir á sendiráðsstarfsmenn og sögðu líklegast að um „múgæsingu“ væri að ræða.