„Við getum orðið vitni að 9/11 daglega fram að jólum,“ sagði Peter Drobac, sérfræðilæknir í smitsjúkdómum og lýðheilsu við Oxfordháskóla, í samtali við Newsweek.
Sérfræðingar í smitsjúkdómum og faraldsfræði óttast að þakkargjörðarhátíðin muni verða til þess að bæði smitum og dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar fjölgi mikið. Milljónir Bandaríkjamanna lögðu land undir fót á þakkargjörðarhátíðinni til að heimsækja ættingja sína.
Nú þegar nálgast daglegar dánartölur í Bandaríkjunum þann fjölda sem lést í hryðjuverkaárásunum 2001. Síðustu tvær vikur hafa rúmlega 2.000 manns látist daglega af völdum COVID-19. Johns Hopkins háskólinn, sem fylgist með þróun heimsfaraldursins, segir að rúmlega 280.000 hafi nú látist af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum. tæplega 15 milljónir hafa greinst með veiruna skæðu.