Virtur rithöfundur, Guðmundur Brynjólfsson, kom Elísabetu Guðmundsdóttur lýtalækni til varnar í heitum umræðum í gær. Elísabet hlaut harða gagnrýni margra netverja í kjölfar frétta þess efnis að hún hefði neitað bæði sýnatöku og að fara í sóttkví við komu til landsins frá Danmörku. Rétt eftir komuna fór hún á mótmælafund gegn sóttvarnaaðgerðum á Austurvelli.
Í dag var staðfest að Elísabet hefur ekki lækningaleyfi. Ekki er vitað hvenær og hvernig hún missti leyfið. DV rætti við Elísabetu í lok október í kjölfar þess að henni var sagt upp störfum á Landspítalanum. Áleit hún að uppsögnin ætti upptök sín í andófi hennar gegn sóttvarnaðagerðum en Elísabet hefur meðal annars komið að áskorunum um að staðkennsla í framhaldsskólum hefjist aftur.
Guðmundur er ekkert að skafa utan af því er hann kemur Elísabetu til varnar og segir:
„Ég nenni ekki að fletta upp öllum eineltismálunum sem hafa verið í fjölmiðlum síðasta árið, hvað þá að ég beri mig eftir öllum blíðu röddunum sem hvína þá yfir höf og lönd af heilagri vandlætingu þess sem kann skil á einelti, þess sem finnur svo ríkulega til með þolendum að athugasemdakerfin renna öll saman í tárum, þeim sem vísa göfugir til samfélagslegra úrlausna, þeirra menntuðu sem kunna Olweus-áætlunina á mörgum tungumálum. Nú stendur allt þetta lið í prófrauninni miðri – og fellur. Fellur með svo miklum bravúr að allir þekktir einkunnaskalar bresta.
Svei ykkur hræsnarar!!!“
„Læknir sýnir af sér borgaralega óhlýðni og er „tekin af lífi“ á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum. Fréttir af henni oft mjög neikvætt gildishlaðnar Skoðanir hennar og rök að engu virt en ráðist að persónu hennar með ljótum hætti. Sama fólkið, í mörgum tilfellum, sem hefur dásamað borgaralega óhlýðni í öðrum málum er nú kaþólskara en páfinn og gengur með samræmdum hætti í takt við fyrirmæli hins opinbera. Og kastar grjóti í hina sem voga sér að mótmæla göngulaginu.“
„Ég verð að viðurkenna að ég er bara alveg sammála þér. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því sem fólk leyfir sér að hafa sterkar skoðanir á einni manneskju. Út um allt.“
https://www.facebook.com/gummimux/posts/1805602612927497