Berlingske skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamennirnir hafi rannsakað hversu hátt hlutfall, þeirra sem greindust með COVID-19, létust innan 30 daga. Þetta hlutfall var síðan borið saman við andlát af völdum inflúensu. Niðurstaðan sýnir að hlutfall látinna, meðal þeirra sem greindust með COVID-19, er þrisvar til fimm sinnum hærra en af völdum inflúensu. Rannsóknin hefur verið ritrýnd og birt í vísindaritinu Frontiers in Medicine.
Vísindamennirnir rannsökuðu niðurstöður allra kórónuveirusýna, sem voru tekin á Sjálandi, þar á meðal í Kaupmannahöfn, frá 1. mars til 1. júní. Tölurnar voru síðan bornar saman við meðaltal inflúensufaraldranna frá nóvember 2017 til júní 2020.
Í ljós kom að tvö prósent þeirra sem greindust með COVID-19, en voru ekki á sjúkrahúsi þegar þeir greindust með sjúkdóminn, eru látnir. Það er fimm sinnum hærra hlutfall en af völdum inflúensu en það er 0,37%.
Michael Benros, prófessor í ónæmisfræði við Kaupmannahafnarháskóla, vann að rannsókninni. Hann var spurður hvort hægt væri að bera dánartíðnina saman þar sem mjög mismunandi er hvernig sýnatökum er háttað vegna COVID-19 og inflúensu. „Það eru ekki tekin svona mörg sýni vegna inflúensu eins og er gert vegna COVID-19 og þannig var það líka í vor. Ef maður gerði það myndi dánartíðnin af völdum inflúensu lækka. Þannig að ef við gætum borið þetta saman einn á móti einum myndi munurinn á dánartíðninni líklega vera meiri en ekki minni,“ sagði hann.